Körfubolti

Golden Sta­te Warri­ors fær kvenna­lið sam­þykkt í WNBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry hjá Golden State Warriors sést hér mættur á WNBA leik og bregður á leik með stjörnuleikmanninum A'ju Wilson hjá Las Vegas Aces.
Stephen Curry hjá Golden State Warriors sést hér mættur á WNBA leik og bregður á leik með stjörnuleikmanninum A'ju Wilson hjá Las Vegas Aces. Getty/Ethan Miller/

Golden State Warriors mun tefla fram liði í WNBA-deildinni frá og með árinu 2025. WNBA hefur samþykkt umsókn Warriors og ákveðið þar með að fjölga liðum í deildinni.

Golden State Warriors hefur verið eitt sigursælasta lið karladeildarinnar, NBA, undanfarin áratug og nú vill félagið einnig gera góða hluti í kvennadeildinni.

Joe Lacob, eigandi Golden State, lofar því að ætla að setja mikið púður í kvennaliðið. „Við erum að koma inn til að verða númer eitt, til að vinna,“ sagði Joe Lacob við ESPN.

„Í öðru lagi þá viljum við sjá deildina og kvennakörfuna stækka og við vonumst til að hjálpa til við það,“ sagði Lacob. Hann segir stefnuna setta strax á að vera tekjuhæsta lið kvennadeildarinnar.

„Við teljum að við getum gert þetta mjög vel af því að við vitum hvernig á að gera þetta. Við höfum allt til alls og við getum komið inn með öfluga styrktaraðila og ég er viss um að deildin muni græða mikið á því,“ sagði Lacob.

Á nýjasta lista Forbes þá er Golden State Warriors verðmætasta félagið í NBA en það er metið á sjö milljarða dollara.

Þar skiptir miklu máli hversu vel tókst til að byggja og taka í notkun nýju íþróttahöll liðsins, Chase Center í San Francisco, sem hefur slegið í gegn.

Kvennaliðið mun einnig spila heimaleiki sína í Chase Center en liðið mun aftur á móti æfa í Oakland þar sem karlaliðið æfði til ársins 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×