Sport

Snæfríður Sól á meðal þeirra bestu í Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snæfríður Sól Jórunnardóttir er búin að slá sautján Íslandsmet og árið 2023 hefur verið mjög flott hjá bestu sundkonu Íslands í dag.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir er búin að slá sautján Íslandsmet og árið 2023 hefur verið mjög flott hjá bestu sundkonu Íslands í dag. SSÍ

Íslenska sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir hefur átt mjög gott ár og það sýnir sig á nýjum heimslista Alþjóða sundsambandsins.

Snæfríður Sól er nú í byrjun október á meðal þeirra bestu í Evrópu í sinni bestu grein. Snæfríður er eins og er í tíunda sæti á Evrópulistanum í 200 metra skriðsundi, sem er virkilega góður og athyglisverður árangur.

Síðasta sundár var eins og áður sagði mjög glæsilegt hjá Snæfríði en hún setti þá ellefu Íslandsmet í 50 metra laug og sex Íslandsmet í 25 metra laug.

Snæfríður synti einnig undir FINA-A lágmarki á HM50 í 200 metra skriðsundi og endaði í fjórtánda sæti í greininni.

Miðað við stöðuna eins og hún er í dag þá verður Snæfríður fulltrúi Íslands á næstu Ólympíuleikum sem fram fara í París á næsta ári.

Snæfríður Sól stundar æfingar og nám í Álaborg en næsta stórmót hjá henni er EM í 25 metra laug í Búkarest í desember. Um næstu helgi mun hún síðan taka þátt í World Cup mótaröðinni í Berlín ásamt fimm öðrum sundmönnum frá Sundsambandi Íslands.

Ísland á fleiri sundmenn ofarlega á heimslistanum. Anton Sveinn McKee var í september á meðal þeirra bestu heiminum. Anton Sveinn er sem stendur í fjórða sæti á Evrópulistanum í 200 metra bringusundi og í fjórtánda sæti á heimslistanum í sömu grein.

Anton Sveinn stundar æfingar í Virgina fylki í Bandaríkjunum en næsta stórmót sem hann tekur þátt í er líka EM í 25 metra laug í Búkarest í desember. Anton Sveinn er eini íþróttamaðurinn á Íslandi sem hefur tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í París á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×