Skoðun

Við getum víst hindrað laxa­strok

Helga Sigrún Harðardóttir skrifar

Undanfarið hafa birst sláandi fréttir af því sem virðist verulegt umfang laxastroks úr sjókvíum við strendur landsins. Þrátt fyrir yfirlýsingar Landssambands fiskeldisstöðva í greinargerð sem finna má á vef Stjórnarráðsins undir heitinu „Nokkrar staðreyndir um fiskeldi í sjó“ um að strok sé algjör undantekning, þá er það staðreynd að kvíarnar halda ekki fiskinum eins og þeim er ætlað, hann sleppur út og gengur upp í árnar. En af hverju halda sjókvíarnar ekki laxinum?

Sjókvíaeldi er ekki einsdæmi á Íslandi og vandamálið sem við stöndum nú frammi fyrir ekki heldur. Alþjóðasamfélagið hefur gefið út ISO staðal nr. 16488:2015 sem byggir á eldri norskum staðli. Þar er m.a. fjallað um hönnun sjókvía t.d. með tilliiti til aðstæðna, útlistað hvernig eftirliti með þeim skal háttað, hvaða innri úttektir skulu fara fram, hvaða kröfur net og annar búnaður skal uppfylla o.s.frv.. Með því er viðurkennt að eldi í sjó er mikilvægur hlekkur í fæðukeðju heimsins en að það er ekki sama hvernig staðið er að slíkum rekstri. Í útgáfu staðalsins felst að allir bestu sérfræðingar greinarinnar á heimsvísu, hafa komið sér saman um bestu aðferðir við að halda laxi í kvíunum. Aðferðafræðin fæst svo vottuð af óháðum þriðja aðila, sem bæði tryggir árangur og auðveldar eftirlitshlutver MAST.

Nú skal ekki lagt mat á það hvort kröfur til rekstraraðila eru of linar eða eftirliti ábótavant hér á landi þó þær raddir hafi heyrst. Það er hins vegar öruggt að með því að gera kröfur um að sjókvíar væru hannaðar skv. kröfum ISO 16488:2015 og reknar eftir því kerfi sem í staðlinum er lagt upp með, þá gerðum við allt sem í okkar valdi stæði til að hindra strok á laxi og notuðum til þess aðferðir sem bestu sérfræðingar á sviðinu, á heimsvísu, hafa gefið leiðbeiningar um.

Valið um að gera betur og tryggja ásættanlega útkomu á þessu sviði eða öðrum er þó alltaf löggjafans eða eftir atvikum þeirra sem gera kröfur í viðkomandi grein um öryggi, virkni og árangur.

Höfundur er framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×