Innlent

Flot­bryggja slitnaði frá landi

Árni Sæberg skrifar
Íbúum Bakkafjarðar tókst að bjarga bátunum fimm.
Íbúum Bakkafjarðar tókst að bjarga bátunum fimm. Aðsend

Milli klukkan fimm og sex í morgun mældist engin úrkoma á Norð-austur- og Austurlandi eftir úrhellisrigningu síðustu daga. Flotbryggja á Bakkafirði losnaði frá landi í mikilli öldu í gærkvöldi.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að þó verði ekki alveg þurrt á Austurlandi í dag en veður verði mun skaplegra. Einnig hafi dregið vel úr vindi.

Veðrið náði að valda töluverðum usla á Bakkafirði í gærkvöldi þegar flotbryggja í Bakkafirði slitnaði frá landi í vonskuveðri. Lesandi, sem sendi Vísi meðfylgjandi mynd, segir að fimm bátar hafi verið við bryggjuna og að tekist hafi að bjarga þeim yfir á aðrar bryggjur.

Síðan hafi náðst að koma böndum á bryggjuna og tryggja hana í bili.

Óli Þór segir að alda hafi verið há við Bakkafjörð í gær og í nótt. Það skýrist af því að stífur vindur hafi staðið úr sömu átt inn Bakkafjörðinn til lengri tíma og að Bakkafjörður sé mjög opinn. Þá séu flotbryggjur þess eðlis að þær þoli litla öldu og vind.

Litlar skriður gætu enn fallið

Í fréttatilkynningu frá Lögreglustjóranum á Austurlandi segir að þær skriður sem fallið hafa á Austfjörðum frá í fyrradag séu allar í lækjarfarvegum, fremur litlar og tjón óverulegt eftir því sem best er vitað. Slíkar skriður gætu enn fallið og því sé vel fylgst með stöðunni. Ekki sé talin ástæða til frekari rýminga að svo stöddu.

Þar segir jafnframt að lítilsháttar úrkoma verði að líkindum í dag og næstu daga. Þá fylgist Veðurstofan með grunnvatnshæð í borholum á Eskifirði og Seyðisfirði. Fyrir þessa úrkomu hafi hún verið mjög lág en hækkað í mörgum holum í gær. Staðan sé enn ekki orðin há, en tíma taki fyrir vatnið að hripa niður í jarðveginn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×