Viðskipti innlent

Ráðnar nýir for­stöðu­menn hjá Ís­lands­banka

Atli Ísleifsson skrifar
Gyða Einarsdóttir og Halldóra Steindórsdóttir.
Gyða Einarsdóttir og Halldóra Steindórsdóttir. Íslandsbanki

Gyða Einarsdóttir og Halldóra G. Steindórsdóttir hafa verið ráðnar nýir forstöðumenn á sviði hugbúnaðarþróunar í bankanum.

Í tilkynningu frá bankanum segir að Halldóra G. Steindórsdóttir sé nýr forstöðumaður daglegra bankaviðskipta á sviðinu og Gyða Einarsdóttir forstöðumaður samstæðulausna. Báðar búi yfir mikilli reynslu af störfum tengdum upplýsingatækni fyrir fjármálafyrirtæki.

„Gyða býr að yfir 20 ára starfsreynslu í teymisstjórnun, verkefnastjórnun, hugbúnaðarþróun og nýsköpun. Hún kemur til Íslandsbanka frá VÍS en þar var hún þróunarstjóri og teymisstjóri nýsköpunar og þróunar. Áður var Gyða hjá Arion banka frá 2010 til 2018 og gegndi þar vöruþróun og teymisstjórn í tengslum við stafræna þróun bankans. Hún starfaði einnig hjá Kaupþingi frá 2001 til 2009, meðal annars að verðbréfatengdum verkefnum og sjálfvirknivæðingu vinnuferla. Hún er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BS gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík með viðskiptafræði sem aukagrein. Þá er Gyða með löggildingu sem verðbréfamiðlari.

Bakgrunnur Halldóru er í tölvunarfræði, en í störfum sínum hefur hún öðlast djúpa þekkingu á greiðslumiðlun fjármálafyrirtækja. Þá býr hún að mikilli reynslu af stjórnun og vinnustofutækni, þróun ferla og verkefnastýringu, lausnahönnun og forritun. Halldóra kemur til Íslandsbanka frá Landsbankanum þar sem hún starfaði frá 2002. Þar var hún síðast hópstjóri á upplýsingatæknisviði og átti fyrir hönd bankans sæti í stjórn Reiknistofu bankanna. Þá á Halldóra sæti í stjórn Snjallgagna og er fulltrúi í allsherjarráði Evrópska greiðslumiðlunarráðsins (EPC).

Halldóra lauk BSc gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2006, en hún hefur einnig lokið IPMA gráðu í verkefnastjórn og hlotið vottun Akademias til stjórnarsetu,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×