Innlent

Þriðji sem lætur lífið af völdum CJS á Íslandi

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Sjúkdómurinn er afar sjaldgæfur og er engin meðferð til við honum.
Sjúkdómurinn er afar sjaldgæfur og er engin meðferð til við honum. vísir/vilhelm

Kona á miðjum aldri lést á síðasta ári skömmu eftir að hafa greinst með hinn sjaldgæfa Creutzfeldt-Jakob sjúkdóm. Sjúkdómurinn hafði tvisvar áður greinst hér á landi og létust báðir einstaklingar stuttu eftir greiningu vegna sjúkdómsins. 

Þetta kemur fram í árskýrslu sóttvarna en RÚV greindi fyrst frá.

Í árskýrslunni segir að sjúkdómurinn Creutzfeldt-Jakobs, skammstafaður CJS, sé í flokki sem nefnist transmissible spongiform encephalopathy.

Sjúkdómurinn er mjög sjaldgæfur, en nýgengi er talið um 0,5–1,5 á hverja 1.000.000 einstaklinga á ári. Langflest tilfelli koma upp tilviljanakennt án þekktrar smitleiðar. 

„CJS veldur hraðvaxandi heilabilun og dregur sjúklinga fljótt til dauða eftir að einkenni koma fram, eða á nokkrum mánuðum. Engin þekkt meðferð er til sem hægir á eða stöðvar sjúkdómsganginn,“ segir í skýrslunni.

Fyrir andlátið á síðasta ári höfðu tveir einstaklingar látist af völdum sjúkdómsins. Það var árin 2006 og 2020. 

Í frétt Ríkisútvarpsins er haft eftir Önnu Margréti Halldórsdóttur yfirlækni sóttvarnarsviðs hjá embætti landlæknis sem segir einkenni oft lengi að koma fram. Meðal einkenna séu minnkandi vitræn geta og hreyfitruflanir.

„Eftir að einkenni koma fram á annað borð koma þau fram með hraðvaxandi heilabilun, með stjórnleysi vöðva og svo framvegis,“ er haft eftir Önnu Margréti. Engin meðferð sé til við sjúkdómnum heldur sé veitt stuðningsmeðferð og líknandi meðferð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×