Innlent

Björguðu ungum manni í sjálf­heldu í Fá­skrúðs­firði

Atli Ísleifsson skrifar
Óskað var eftir þyrlu frá Landhelgisgæslu sem hélt af stað frá Reykjavík rétt upp úr klukkan 22.
Óskað var eftir þyrlu frá Landhelgisgæslu sem hélt af stað frá Reykjavík rétt upp úr klukkan 22. Landsbjörg

Björgunarsveitarmenn á Austurlandi og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar björguðu ungum manni sem hafði lent í sjálfheldu í Tungutröð, klettabelti milli Daladals og Tungudals inn af Fáskrúðsfirði, í gærkvöldi.

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að útkall hafi borist rétt upp úr klukkan 20 og hafi björgunarsveitir frá Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Neskaupstað haldið á vettvang til aðstoðar.

Fram kemur að maðurinn hafi verið talsvert hátt uppi í fjallinu og í snarbröttu klettabelti.

„Drónar voru notaðir til að staðsetja manninn og hafa yfirsýn yfir svæðið á meðan aðgerðir stóðu yfir.

Björgunarfólk hélt á fjallið með fjallabjörgunarbúnað, og tókst að komast upp fyrir manninn og síga niður til hans. Hann var þá orðinn kaldur og stirður og ljóst að hann myndi ekki geta gengið niður að sjálfsdáðum. Óskað var eftir þyrlu frá Landhelgisgæslu sem hélt af stað frá Reykjavík rétt upp úr klukkan 22.

Landsbjörg

Björgunarfólk hóf aðgerðir við að koma mannininum neðar í fjallið, svo þyrlan ætti hægara um vik að ná til hans, þegar hún kæmi á vettvang.

Settar voru upp tryggingar fyrir þá sem voru í fjallinu, og unnið að því að síga með mannin niður úr bröttustu klettunum. Það gekk vel og var þá hægt að búa hann undir að vera hífður upp í þyrluna.

Rétt fyrir klukkan eitt í nótt var hann svo hífður upp í þyrlu, og fluttur niður á flugvöllinn í Fáskrúðsfirði.

Björgunarfólk hélt þá niður fjallið með búnað sinn, og var aðgerðum lokið rétt fyrir þrjú í nótt, þegar Norðfirðingar voru komnir til síns heima,“ segir í tilkynningunni.

Landsbjörg


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×