Enski boltinn

Liver­pool blandar sér í bar­áttuna um Gra­ven­berch

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gæti verið á leiðinni til Englands.
Gæti verið á leiðinni til Englands. Etsuo Hara/Getty Images

Það styttist óðfluga í að félagaskiptaglugginn í stærstu deildum Evrópu loki og því er hver að verða síðastur að sækja sér nýja leikmenn. Miðjumaðurinn Ryan Gravenberch, leikmaður Þýskalandsmeistara Bayern München er eftirsóttur af tveimur liðum á Englandi.

Fyrir skemmstu kom það upp úr krafsinu að Thomas Tuchel, þjálfari Bayern, vildi fá skoska miðjumanninn Scott McTominay í sínar raðir en sá spilar með Manchester United. Þar sem Rauðu djöflarnir eru heldur þunnskipaðir á miðsvæðinu var talið líklegast að Bayern myndi lána Man United leikmann til að geta fengið hinn 26 ára gamla McTominay á láni.

Var Gravenberch þá nefndur til sögunnar en hann og Erik ten Hag, þjálfari Man United, unnu saman hjá Ajax þar sem hann er uppalinn. Ten Hag hefur verið einkar duglegur að sækja leikmenn sem hann þekkir persónulega til Manchester.

Nú hefur hins vegar Sky Sports greint frá því að erkifjendur Man United í Liverpool hafi líka áhuga á að fá hinn 21 árs gamla Gravenberch í sínar raðir. Sá á ekki upp á pallborðið hjá Tuchel og virðist sem hann verði lánaður frá Bayern aðeins ári eftir að hann gekk í raðir félagsins.

Lærisveinar Jürgen Klopp þarfnast frekari styrkingar á miðsvæðið eftir að hafa misst Fabinho, Jordan Henderson, Naby Keïta og James Milner í sumar. Klopp heufr fest kaup á Dominik Szoboszlai, Alexis Mac Allister og Wataru Endo en vill fleiri möguleika á miðsvæðið, þar passar Gravenberch vel inn í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×