Lífið

„Við erum ekkert stödd á voðalega góðum stað“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gurrý fer yfir heilsu og hreyfingu í nýjum þáttum á Stöð 2.
Gurrý fer yfir heilsu og hreyfingu í nýjum þáttum á Stöð 2.

Guðríður Torfadóttir, eða Gurrý, er á leiðinni í loftið með þættina Gerum betur á Stöð 2 þar sem venjulegu fólki er kennt hvernig á að komast í form á heilbrigðan hátt.

Um er að ræða fræðslu- og skemmtiþætti þar sem fjallað er um heilsu frá ýmsum sjónarhornum.

Í hverjum þætti svara sérfræðingar spurningum og fræða um efnið á mannamáli. Í gegnum þáttaröðina er sjö einstaklingum fylgt eftir sem taka þátt í heilsuáskorun. Svo sjá áhorfendur hvaða hindrunum þeir lenda í við að tileinka sér heilbrigðari lífsstíl.

Rætt var við Gurrý í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi en fyrsti þátturinn af seríunni fór einmitt í loftið í gær.

„Mig hefur langað að gera þetta ótrúlega lengi og þegar ég var í hinni þáttaröðinni The Biggest Loser þá var fólk alltaf að biðja um um fleiri upplýsingar hvað það ætti að gera. Því erum við bara að sameina fræðsluna og fá venjulegt fólk til að fara með okkur í þetta,“ segir Gurrý.

„Ég er eiginlega hrifnust af því, reynslunni ríkari, þegar fólk tekur lítil skref. Ekki fara út, ætla sigra heiminn strax og allar þessar öfgar,“ segir Gurrý sem var einnig spurð hvar við sem þjóð værum stödd þegar kemur að heilbrigði.

„Við erum ekkert stödd á voðalega góðum stað. Við getum gert miklu betur. Mataræði hjá okkur Íslendingum er ekki gott. Auðvitað er stór hópur sem er að gera vel og er að hreyfa, og það er hópur sem fer stækkandi en hinn hópurinn fer líka stækkandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×