Erlent

Úkraínu­for­seti segir árás á blóð­gjafar­stöð vera stríðs­glæp

Eiður Þór Árnason skrifar
Illa gekk að ráða við eldinn eftir sprenginguna.
Illa gekk að ráða við eldinn eftir sprenginguna. Telegram/Volodomír Selenskí

Tveir fórust og fjórir særðust þegar rússnesk stýrisprengja hæfði blóðgjafarmiðstöð í norðausturhluta Úkraínu, að sögn þarlendra embættismanna. Volodomír Selenskí Úkraínuforseti birti ljósmynd af alelda heilbrigðisstofnuninni sem er nærri borginni Kupiansk í Kharkív-héraði.

Forsetinn lýsir árásinni sem stríðsglæp en rússnesk yfirvöld hafa ekki enn gengist við henni.

Borgin Kupiansk og nærliggjandi svæði komust undir stjórn rússneska hersins á fyrstu dögum innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Úkraínuher tókst síðar að ná svæðinu aftur á sitt vald í september síðastliðnum og er það nú sagt verða fyrir daglegum flugskeyta- og stórskotaliðsárásum.

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu en í færslu á samfélagsmiðlinum Telegram lýsir Selenskí Rússlandsher sem „ófreskjum.“ Hann segir einnig að Rússar hafi í gær gert flugskeytaárás á flugrekstrarfyrirtæki í Khmelnytskyi-héraði í vesturhluta Úkraínu.

Fyrr í dag grönduðu Rússar dróna sem nálgaðist Moskvu, höfuðborg Rússlands, að sögn Sergei Sobyanin borgarstjóra.

Rússnesk yfirvöld segja að drónar á vegum Úkraínumanna hafi í síðustu viku tvívegis gert árás á skrifstofuhúsnæði í skýjakljúfi nokkrum í höfuðborginni. Stjórnvöld í Úkraínu hafa ekki gengst opinberlega við árásunum.

Ráðamenn í Moskvu hafa sömuleiðis sakað Úkraínumenn um að hafa hæft rússneskt tankskip á Svartahafi í gær. Er um að ræða aðra drónaárásina sem er gerð á rússnesk skotmörk á sjó á nokkrum dögum.


Tengdar fréttir

Gerðu árás á flotastöð og skemmdu herskip

Úkraínumenn réðust á rússneska flotastöð nærri Novorossiysk við á Svartahafi í nótt og virðast hafa valdið skemmdum á herskipi. ­Litlir fjarstýrðir sjálfsprengibátar voru notaðir til árásarinnar en Rússar segjast hafa grandað þeim öllum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×