Enski boltinn

Bayern krefst svara strax eftir nýtt risatilboð í Kane

Sindri Sverrisson skrifar
Harry Kane er markahæstur í sögu Tottenham og enska landsliðsins, og næstmarkahæstur í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, á eftir Alan Shearer.
Harry Kane er markahæstur í sögu Tottenham og enska landsliðsins, og næstmarkahæstur í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, á eftir Alan Shearer. Getty/Yong Teck Lim

Bayern München hefur ákveðið að rjúfa 100 milljóna evra múrinn með nýju tilboði í Harry Kane, framherja Tottenham, og vill fá skýrt svar í dag um hvort að kaupin geti gengið eftir.

Frá þessu greinir til að mynda Sky Sports í Englandi og Þýskalandi. Þýski miðillinn segir að eftir samningafundi forráðamanna félaganna í Lundúnum í vikunni sjái nú fyrir endann á félagaskiptasögunni, en ekki sé enn ljóst hvort að félögin nái saman um kaupverð.

Bayern sé þó tilbúið að gera Kane að dýrasta leikmanni í sögu þýsku 1. deildarinnar í fótbolta en ekki sé eins víst að Tottenham samþykki 100 milljóna evra tilboðið.

Enska blaðið Telegraph segir að Bayern hafi gefið Tottenham frest til miðnættis til að samþykkja tilboðið en samkvæmt Sky í Þýskalandi er það ekki alveg svo að um afarkosti sé að ræða og að málið sé úr sögunni kjósi Tottenham að hafna tilboðinu.

Kane, sem er þrítugur, á eitt ár eftir af samningi sínum við Tottenham. Hann er sagður þegar búinn að samþykkja að ganga til liðs við Bayern svo að málið snýst aðeins um það hvort að Daniel Levy og félagar hjá Tottenham samþykkja tilboð þýsku meistaranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×