Fótbolti

Orri Steinn tók markamet af Rúnari Má

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson með boltann eftir leikinn og sýnir að sjálf sögðu þrjá putta fyrir þrjú mörk.
Orri Steinn Óskarsson með boltann eftir leikinn og sýnir að sjálf sögðu þrjá putta fyrir þrjú mörk. Getty/Lars Ronbog

Orri Steinn Óskarsson varð í gærkvöldi fyrsti íslenski leikmaðurinn sem nær að skora þrennu í Evrópuleik á móti íslensku liði.

Orri Steinn skoraði þrjú mörk í 6-3 sigri FC Kaupmannahöfn á Íslandsmeisturum Breiðabliks og var einnig með eina stoðsendingu á einn liðsfélaga sinn.

Orri sló með þessu markamet Rúnars Más Sigurjónssonar frá árinu 2016. Enginn Íslendingur hefur skorað fleiri mörk í leik á móti íslensku liði í Evrópukeppni.

Rúnar átti metið síðan hann skoraði bæði mörk svissneska félagsins Grasshopper í 2-1 sigri á KR í undankeppni Evrópudeildarinnar 21. júlí 2016. Rúnar kom Grasshopper í 1-0 á 44. mínútu og skoraði síðan sigurmarkið á 68. mínútu eftir að KR jafnaði metin í upphafi seinni hálfleiks.

Jóhannes Eðvaldsson var fyrstur Íslendinga til að skora á móti íslensku liði í Evrópukeppni þegar hann skoraði fyrir Celtic gegn Val. Jóhannes skoraði þá fyrsta mark Celtic í 7-0 sigri á Celtic Park í Evrópukeppni bikarhafa 1. október 1975.

Arnór Guðjohnsen skoraði fyir sænska liðið Örebro í 3-1 sigri á Keflavík í Intertoto keppninni en leikurinn fór fram í Svíþjóð 23. júní 1996. Arnór skoraði fyrsta mark sænska liðsins í leiknum á 23. mínútu.

Viðar Örn Kjartansson skoraði síðan fyrir ísraelska félagið Maccabi Tel Aviv 3-1 sigri á KR í undankeppni Evrópudeildarinnar 13. júlí 2017. Viðar skoraði annað mark ísraelska liðsins og kom liðinu yfir á 79. mínútu eftir að KR-ingar höfðu komist í 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×