Erlent

Enn gerðar drónaárásir í Moskvu

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmenn fyrir utan háhýsi í miðborg Moskvu sem varð fyrir skemmdum vegna dróna í morgun.
Slökkviliðsmenn fyrir utan háhýsi í miðborg Moskvu sem varð fyrir skemmdum vegna dróna í morgun. AP

Yfirvöld í Rússlandi segja dróna hafa hæft byggingu í Moskvu, tveimur dögum eftir að annar dróni hæfði sömu byggingu. Úkraínumenn virðast vera að auka framleiðslu á eigin drónum sem hægt er að nota til árása í Rússlandi.

Samkvæmt Varnarmálaráðuneyti Rússlands voru tveir drónar skotnir niður fyrir utan Moskvu í morgun en minnst einn dróni hæfði háhýsi í Moskvu sem hýsir skrifstofur nokkurra ráðuneyta. Rússar segja að búið hafi verið að trufla innra kerfi drónans og hann hafi brotlent á byggingunni.

Engar upplýsingar liggja fyrir um hvort einhver lét lífið eða særðist, samkvæmt frétt RIA fréttaveitunnar, sem er í eigu rússneska ríkisins.

Þetta er í minnst fjórða sinn á rúmri viku sem árásir af þessu tagi eru gerðar í Moskvu, samkvæmt New York Times.

Sambærileg árás var gerð á sunnudaginn en þá segjast Rússar hafa skotið niður einn dróna og að einn til viðbótar hafi brotlent. Þá sagði Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, að stríðið í Úkraínu væri að færast til Rússlands.

Sjá einnig: „Stríðið færist til Rússlands“

Ráðamenn í Úkraínu viðurkenna sjaldan sem aldrei árásir sem þessar. New York Times segir þó að minnst þrjár mismunandi tegundir úkraínskra dróna hafi verið notaðar til árása í Rússlandi og þar á meðal í Moskvu. Blaðamenn miðilsins greindu myndefni frá Úkraínu en drónar sem sjást þar eru taldir geta flogið hundruð kílómetra.

Viðtöl blaðamanna benda einnig til þess að Úkraínumenn séu að auka framleiðslu á þessum drónum með því markmiði að gera tíðari árásir í Rússlandi.

Minnst tólf borgara eru sagðir hafa fallið í árásum Rússa á Úkraínu í gær og fleiri en hundrað munu hafa særst.


Tengdar fréttir

Hafa flutt fleiri en sjö hundruð þúsund börn til Rússlands

Yfirvöld í Rússlandi hafa flutt fleiri en sjö hundruð þúsund börn frá Úkraínu til Rússlands. Í nýrri skýrslu frá Maríu Lvova-Belova, nokkurs konar umboðskonu barna í Rússlandi, segir að mikill meirihluti þeirra hafi komið til Rússlands með foreldrum sínum.

„Við munum hvorki gleyma né fyrir­gefa neitt af þessu“

Rússar segjast hafa eyðilagt hernaðarlega mikilvæga stjórnstöð í úkraínsku borginni Dnipro í gær. Níu særðust í eldflaugaárásum á borgina, þar af tvö börn. Forseti Úkraínu gerir allt hvað hann getur til að hvetja þjóð sína til dáða í stríðinu.

Rússar segjast hafa skotið niður dróna í Moskvu

Rúss­nesk stjórn­völd full­yrða að þau hafi skotið niður dróna í höfuð­borginni Moskvu í nótt. Þau segja drónann hafa verið úkraínskan en enginn særðist í á­rásinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×