Fótbolti

Sabitzer kominn í hóp þeirra sem hafa verið á mála hjá Dort­­mund og Bayern

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcel Sabitzer í leik með Manchester United.
Marcel Sabitzer í leik með Manchester United. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Austurríkismaðurinn Marcel Sabitzer er genginn í raðir Borussia Dortmund frá Þýskalandsmeisturum Bayern München. Hann er langt því frá fyrsti leikmaðurinn sem fer á milli liðanna á undanförnum árum.

Hinn 29 ára gamli Sabitzer var á láni hjá Manchester United í Englandi á síðustu leiktíð. Enska félagið ákvað að festa ekki kaup á honum en ljóst var að hann ætti ekki mikla framtíð fyrir sér hjá Bayern.

Nú hefur verið staðfest að hann sé á leið til silfursliðs þýsku úrvalsdeildarinnar fyrir 19 milljónir evra (2,8 milljarða íslenskra króna). Skrifar hann undir samning til ársins 2027.

„Get ekki beðið eftir að ganga í raðir félagsins og klæðast treyju Dormtund. Samræðurnar við Dortmund voru frábærar og sýndu fram á hversu metnaðarfullt félagið er. Ég vill leggja mitt að mörkum og hjálpa félaginu að ná markmiðum sínum,“ sagði Sabitzer um skiptin.

Fyrr í sumar var staðfest að portúgalski bakvörðurinn Raphaël Guerreiro hefði samið við Bayern en hann lék með Dortmund frá 2016 til 2023. Síðasta sumar festi Dortmund kaup á þýska miðverðinum Niklas Süle en sá lék með Bayern frá 2017 til 2022.

Sabitzer er margreyndur landsliðsmaður sem á að baki 71 A-landsleik fyrir Austurríki. Hann gekk í raðir Bayern sumarið 2021 frá RB Leipzig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×