Fótbolti

Blikar vígja nýtt gras á Parken

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Breiðablik vann góðan sigur í gær og spilar á nýlögðu grasi í Kaupmannahöfn.
Breiðablik vann góðan sigur í gær og spilar á nýlögðu grasi í Kaupmannahöfn. Vísir/Diego

Breiðablik mun vígja nýtt gras á Parken, heimavelli FC Kaupmannahafnar og dönsku landsliðanna í knattspyrnu, þegar Blikar mæta FCK í síðari leik liðanna í 2. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu.

Breiðablik sló í gær út Shamrock Rovers frá Írlandi og tryggði sér þar með einvígi gegn danska meistaraliðinu FCK. Fyrri leikur liðanna fer fram á Kópavogsvelli þann 25. júlí en sá síðari þann 2. ágúst á Parken. Ljóst er að spilað verður við bestu aðstæður í Kaupmannahöfn en leikvangurinn glæsilegur og þá tilkynnti FCK að verið sé að skipta um gras á vellinum fyrir komandi tímabil.

Í tilkynningu FCK segir að eftir tónleika sumarsins sé kominn tími til að skipta um gras fyrir komandi tímabil. Hljómsveitirnar Depeche Mode og Coldplay spiluðu á Parken áður en Bruce Springsteen & The E Street Band mætti og trylltu lýðinn.

Þar sem grasið var orðið lúið eftir langt og strangt tímabil þá var kominn tími til að skipta um eftir að Danmerkurmeistaratitillinn fór á loft síðasta vor. FCK ákvað hins vegar að bíða þar sem fjöldi tónleika var framundan á vellinum yfir sumartímann og ljóst að grasið myndi koma illa undan því.

Nú er tónleikahaldi loks lokið og nýtt tímabil við það að hefjast í Danmörku. Því hefur verið ákveðið að skipta um gras og verður Breiðablik fyrsta liðið til að leika á vellinum eftir að nýtt gras verður tilbúið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×