Innlent

Ríkið styrkir Þor­björn um tíu milljónir króna

Árni Sæberg skrifar
Björgunarsveitarmenn í Þorbirni hafa staðið í ströngu undanfarið.
Björgunarsveitarmenn í Þorbirni hafa staðið í ströngu undanfarið. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu forsætisráðherra og dómsmálaráðherra um að styrkja björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík um 10 milljónir króna.

Þetta segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Þar segir að fjárveitingin sé veitt til að efla áframhaldandi starf björgunarsveitarinnar og í viðurkenningar- og virðingarskyni við starfsemina en hún hafi verið í lykilhlutverki undanfarin ár vegna viðvarandi eldsumbrota á svæðinu.

„Með þeim eldsumbrotum sem hafa átt sér stað á Reykjanesskaga á undanförnum árum, þar á meðal þeim sem hófust við Litla-Hrút í upphafi þessarar viku, hefur mikilvægi björgunarsveita landsins enn og aftur sannast,“ segir í tilkynningu.

Mikið hafi mætt á sjálfboðaliðum björgunarsveitanna, þar með talið í björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík, sem hafa fylgst með gangi mála á gossvæðinu, tryggt lokun svæða þegar við á og stýrt umferð vegfarenda. Mikill fjöldi sjálfboðaliða manni vaktir á svæðinu hverju sinni, oft og tíðum við krefjandi aðstæður.

Styrkurinn muni nýtast öllum þeim björgunarsveitarmönnum sem eru að störfum á svæðinu og koma hvaðanæva af landinu og eru þeim færðar þakkir fyrir sitt óeigingjarna starf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×