Körfubolti

Staðfestir að hann mæti til leiks á næsta tímabili

Smári Jökull Jónsson skrifar
LeBron ætlar ekki að leggja skóna á hilluna alveg strax.
LeBron ætlar ekki að leggja skóna á hilluna alveg strax. Vísir/Getty

LeBron James staðfesti í nótt að hann ætlar að spila í NBA-deildinni á næsta tímabili. James hafði áður ýjað að því að hann myndi leggja skóna á hilluna.

James var mættur á afhendingu ESPY verðlaunanna í nótt en þar eru íþróttamenn í Bandaríkjunum verðlaunaðir fyrir frammistöðu sína á árinu.

Eftir að liði Los Angeles Lakers var sópað úr úrslitakeppni NBA-deildarinnar af verðandi meisturum Denver Nuggets í vor, sagði James að hann þyrfti að íhuga það hvort hann myndi halda áfram að spila körfubolta. Hann sagði að hann yrði að spyrja sjálfan sig hvort hann gæti haldið áfram að skila frammistöðu „án þess að svindla í leiknum“ og „gefið allt sem hann ætti í íþróttina.“

James lék frábærlega á tímabilinu. Hann skoraði 28,9 stig að meðaltali á síðustu leiktíð, tók 8,3 fráköst og gaf 6,8 stoðsendingar. Magnaðar tölur fyrir 38 ára gamlan leikmann.

„Þegar sá dagur kemur að ég get ekki gefið allt mitt á gólfinu, þá er ég búinn. Sem betur fer fyrir ykkur er sá dagur ekki í dag,“ sagði James á afhendingu verðlaunanna.

Næsta tímabil verður það tuttugasta og fyrsta hjá James í NBA-deildinni en hann hefur fjórum sinnum orðið NBA-meistari og fjórum sinnum verið valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×