Körfubolti

Tilbúnir að bíða í marga mánuði með að ákveða framtíð Lillard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damian Lillard .þarf að bíða þolinmóður á meðan Portland Trail Blazers bíður eftir nógu góðu tilboði í hann,
Damian Lillard .þarf að bíða þolinmóður á meðan Portland Trail Blazers bíður eftir nógu góðu tilboði í hann, Getty/Alika Jenner

NBA stórstjarnan Damian Lillard óskaði eftir því að vera skipt frá Portland Trail Blazers á dögunum og vill hann komast til Miami Heat.

Það er hins vegar ljóst að Miami Heat, eða önnur félög, þurfa að gefa eftir mikið í staðinn fyrir hann og miðað við nýjustu yfirlýsingar frá framkvæmdastjóra Trail Blazers þá ætlar félagið ekki að slaka á kröfum sínum.

Joe Cronin, framkvæmdastjóri Portland Trail Blazers, ræddi við fjölmiðla í gær og notaði tækifærið til að senda óbein skilaboð til Miami og annara félaga sem dreymir um að fá Lillard.

„Það sem ég hef lært mest af öllu er að þolinmæði er algjört lykilatriði,“ sagði Joe Cronin.

„Ekki bregðast við og ekki stökkva á hluti bara til að reyna að leysa vandamál. Ég lít svo á að þau lið sem hafa komið best út úr leikmannaskiptum eru þau félög sem hafa tekið sinn tíma og hafa ekki verið hvatvís,“ sagði Cronin.

„Okkar nálgun verður því þannig. Vera þolinmóð og gera það besta fyrir okkar lið. Við ætlum að bíða og sjá hvernig þetta þróast. Ef að þetta tekur einhverja mánuði þá mun það taka einhverja mánuði,“ sagði Cronin.

Damian Lillard er frábær leikmaður sem hefur ekki náð að vinna neitt á ellefu tímabilum hjá Portland Trail Blazers. Hann var með 32,2 stig og 7,3 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðustu leiktíð en er með 25,2 stig og 6,7 stoðsendingar að meðaltali í 769 deildarleikjum með Trail Blazers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×