Innlent

Fyrsta há­lendi­svaktin farin af stað

Atli Ísleifsson skrifar
Hafdís Einarsdóttir, formaður björgunarsveitarinnar Skagfirðingasveitar frá Sauðárkróki.
Hafdís Einarsdóttir, formaður björgunarsveitarinnar Skagfirðingasveitar frá Sauðárkróki. Stöð 2

Á hverju sumri heldur fjöldi sjálfboðaliða í björgunarsveitum landsins upp á hálendið og er þar til staðar ef óhöpp eða slys verða hjá þeim fjölmörgu sem þar eiga leið um. Fyrsta hálendisvaktin bjó sig undir brottför í gærkvöldi.

Margrét Björk Jónsdóttir fréttamaður hitti á Hafdísi Einarsdóttur, formann björgunarsveitarinnar Skagfirðingasveitar, í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi þar sem fyrsta hálendisvaktin var að búa sig undir förina.

Hafdís sagði helstu verkefnin snúa að því að vera til staðar fyrir þá ferðamenn sem séu á svæðinu. „Draga upp fasta bíla, hlúa að slösuðum einstaklingum og vera fyrsta viðbragð á svæðinu hverju sinni,“ segir Hafdís.

Hún segir að sveitirnar taka allan sinn helsta tæki búnað í ferðirnar. „Við erum að taka fjallajeppa sem kemst í allan snjóinn. Við erum með nýjan „buggy“ og við ætlum að nýta tækifærið og fara á og kynnast,“ segir Hafdís.

Hafdís segir það talsverða fyrirhöfn að fara í gæslu sem þessa. „Við erum átta sem förum núna frá björgunarsveitinni Skagfirðingasveit, Sauðárkróki. En í heildina er þetta allt upp í tvö hundruð manns frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg sem fara í þetta verkefni í sumar. 25 vaktir á þremur stöðum á hálendinu.“

Er ekkert mál að manna þessar vaktir og fá fólk í þetta?

„Þetta hefur gengið þokkalega,. Það kannski stafar af því að þetta er svolítið sumarfrí, uppskeruhátíð fyrir okkur. Við erum að fá gríðarlega þjálfun. Við erum í sveit sem fáum fá útköll á árinu og fáum því mikla þjálfun á svæðinu og svo þéttir þetta hópinn. Þetta er bara skemmtilegt. En jújú, vissulega er þetta tími sem fólk er að taka frá. Allt í sjálfboðavinnu,“ segir Hafdís.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×