Körfubolti

Meiðsla­hel­víti Lonzo Ball ætlar engan endi að taka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lonzo Ball [til vinstri] í leik með Chicago Bulls.
Lonzo Ball [til vinstri] í leik með Chicago Bulls. Katelyn Mulcahy/Getty Images

Chicago Bulls hefur gefið út að það reikni ekki með að leikstjórnandinn Lonzo Ball geti spilað með liðinu í NBA-deildinni í körfubolta á næstu leiktíð.

Hinn 25 ára gamli Ball hefur spilað með Bulls síðan 2021 eftir að hafa komið inn í deildina þegar Los Angeles Lakers valdi hann í nýliðavalinu árið 2017. Þar var hann til 2019 áður en hann færði sig yfir til New Orleans Pelicans.

Ball hefur verið að glíma við meiðsli nær allan sinn NBA-feril og hafa skórnir sem hann spilaði lengi vel í verið nefndir sem ástæða meiðslanna. Um er að ræða skó frá merkinu Big Baller Brand sem er í eigu LaVar Ball, föður Lonzo.

Á sínu fyrsta tímabili hjá Bulls spilaði Lonzo aðeins 35 leiki en hann missti af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla. Nú hefur félagið gefið út að það reikni ekki með að hann spili á komandi leiktíð.

Bulls endaði í 10. sæti Austurdeildar á síðustu leiktíð með 40 sigra og 42 töp. Liðið fór í umspil þar sem það féll úr leik gegn Miami Heat sem fór alla leið í úrslit.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×