Lífið

„Fólk verður bara að taka mynd af sér“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kristinn vonast til að gæluverkefnið laði að sér ferðamenn úr öllum heimshlutum.
Kristinn vonast til að gæluverkefnið laði að sér ferðamenn úr öllum heimshlutum. kristinn jónasson

„Vinsamlegast kyssist,“ stendur á nýju skilti í Ólafsvík sem sveitarstjóri vonast til að verði aðdráttarafl í bænum. Regnbogastígur á Kirkjutúni var málaður í gær við hliðina á Ólafsvíkurkirkju og undir Bæjarfossi.

Tilefni þess að blaðamaður leitaði til Kristins var skemmdarverk sem unnið var á regnbogastígnum í gær. Búið var að mála stíginn aftur strax um níu í morgun og vildi Kristinn þar að auki ekki veita slíkum skemmdarverkum neina athygli. 

Þess í stað benti hann á nýtt skilti sem reist var við hlið Kirkjutúns í gær og hefur verið gæluverkefni hans í byrjun sumars. Myndir frá framkvæmdunum birti hann á Facebook:

„Það eiga allir að geta samsvarað sig við þetta skilti, sama hvers kyns eða kynhneiðgðar fólk er. Ég var til miðnættis í gærkvöldi að leika mér við þetta, þetta er svona verkefni ársins sem ég ákvað persónulega að gera,“ segir Kristinn í samtali við Vísi.

Hugmyndin sé að búa til stað við hliðina á regnboganum og við kirkjuna þar sem fólk verður hreinlega að taka mynd af sér við. 

„Maður er alltaf að hugsa hvernig maður getur búið til aðdráttarafl og jákvæða upplifun. En þetta er stolin hugmynd frá Garda vatni á Ítalíu. Þar stóð fólk í röð við sambærilegt skilti.“

„Þetta  snýst bara um það að sýna fólki umburðarlyndi, alveg sama hvernig og hver við erum. Það er mín lífsskoðun,“ segir Kristinn að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×