Sport

Bíða með brokkið vegna bongó­blíðu

Árni Sæberg skrifar
Þessir hestar eru í Mosfellsdal og því alveg lausir við of háan hita.
Þessir hestar eru í Mosfellsdal og því alveg lausir við of háan hita. Vísir/Vilhelm

Ákveðið var að fresta hestamannamóti hestamannafélagsins Freyfaxa, sem halda átti í dag á Héraði, vegna hita. „Svona er þetta bara bara hérna fyrir austan, menn þurfa ekkert að kaupa sér miða til Tenerife,“ segir formaður félagsins.

Guðrún Agnarsdóttir formaður Freyfaxa segir í samtali við Vísi að mótinu hafi verið frestað af dýraverndunarsjónarmiðum. „Hestar í keppni eru náttúrulega á fullum afköstum og þurfa að taka vel á. Okkur fannst þetta bara hestvænna.“

Hún segir að stefnt sé að því að hefja mótið um klukkan 15:30. Nú sé kominn smá andvari en menn séu samt sem áður að stikna þrátt fyrir að vera á stuttbuxum og hlýrabolum.

Mótið heldur áfram á morgun en örlítið lægri hita er spáð þá og Guðrún gerir ekki ráð fyrir því að fresta þurfi mótinu á morgun. Annars segir hún að sólin setjist seint og því sé ekkert vandamál að keppa langt fram á kvöld, þurfi þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×