Skoðun

Meiri dauði hér en við Noreg

Ingólfur Ásgeirsson skrifar

Fyrstu fjóra mánuði ársins drápust rúmlega 1,1 milljón eldislaxa í sjókvíum við Ísland. Það er um það bil 19-föld stærð villta íslenska laxastofnsins.

Tölur yfir laxadauðann í sjókvíunum er hægt að sjá á Mælaborði fiskeldis sem er birt á vefsvæði Matvælastofnunar (MAST) en tölurnar eru uppfærðar fyrir mánuðinn á undan undir lok þess næsta.

Lofa betrun en svíkja alltaf

Laxadauðinn sjókvíunum er hlutfallslega töluvert meiri hér en í sjókvíaeldi við Noreg, en þar þykir þó staðan óásættanleg. Norsku fyrirtækin og stjórnvöld heita á hverju ári bót og betrun en svo gerist ekki neitt.

Fagráð MAST um dýravelferð fjallaði í fyrsta skipti um þetta skelfilega ástand á mánaðarlegum fundi sínum nú í vor. Löngu tímabært var að þetta málefni væri rætt þar. MAST ber beinlínis skylda til að gæta að dýravelferð. Frammistaða sjókvíeldisfyrirtækjanna í þeim efnum er grátlega vond.

Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu

Í fyrra drápust um þrjár milljónir eldislaxa í sjókvíum við Ísland. Var það sorglegt met í sjókvíaeldi við Ísland, bæði í fjölda og hlutfalli af eldislaxi sem var settur í sjókvíarnar. Um það bil einn af hverjum fimm löxum þoldu ekki þann aðbúnað sem þessi ómannúðlega aðferð við matvælaframleiðslu býður eldisdýrunum upp á.

Ljósmyndin sem fylgir þessari grein sýnir löndun á eldislaxi sem stráféll í sjókvíum í Dýrafirði í fyrra. Fiskarnir drápust vegna bakteríusýkinga og vetrarsára.

Hver vilja leggja sér til munns matvæli sem eru framleidd með þessum hætti?

Löndun á eldislaxi á Vestfjörðum. Rúmlega 800.000 eldislaxar drápust í sjókvíum Arctic Fish í Dýrafirði í janúar og febrúar í fyrra. Athugið að þetta voru manngerðar hörmungar. Í tilkynningu frá móðurfélagi Arctic Fish til norsku kauphallarinnar kom að þennan hrikalega dauða eldisdýranna mátti meðal annars rekja til „meðhöndlunar“ á eldislaxinum. Ef bóndi á landi færi þannig með dýrin sín að þriðjungur þeirra dræpist, þá yrði hann umsvifalaust sviptur leyfi til dýrahalds og kærður til lögreglu.Veiga Grétarsdóttir

Höfundur er félagi í Íslenska náttúruverndarsjóðnum - The Icelandic Wildlife Fund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×