Fótbolti

Meistara­von Wolfs­burg lifir eftir dramatískar loka­mínútur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sveindís Jane fagnar hér bikarmeistaratitlinum sem Wolfsburg vann á dögunum ásamt liðsfélögum sínum.
Sveindís Jane fagnar hér bikarmeistaratitlinum sem Wolfsburg vann á dögunum ásamt liðsfélögum sínum. Vísir/Getty

Von Wolfsburg um þýska meistaratitilinn í knattspyrnu lifir eftir dramatískan sigur liðsins gegn Meppen í dag. Sveindís Jane Jónsdóttir kom við sögu í liði Wolfsburg.

Wolfsburg og Bayern hafa skipað tvö efstu sæti deildarinnar allt tímabilið og eftir jafntefli Bayern gegn Leverkusen í gær var ljóst að Wolfsburg gæti minnkað muninn niður í tvö stig með sigri. Annað en sigur þýddi að Bayern væri Þýskalandsmeistari.

Wolfsburg lenti undir í fyrri hálfleik í dag þegar Sarah Schulte skoraði fyrir Meppen á 30. mínútu. Jill Roord jafnaði metin fyrir Wolfsburg á 64. mínútu en á 84. mínútu virtist sem Lisa Josten væri að tryggja Meppen sigur þegar hún kom liðinu 2-1 yfir.

Wolfsburg játaði sig hins vegar ekki sigrað. Pauline Bremer jafnaði metin á 88. mínútu eftir sendingu Alexandra Popp og Popp skoraði svo sjálf sigurmarkið á fimmtu mínútu í uppbótartíma og tryggði Wolfsburg sigurinn.

Sveindís Jane Jónsdóttir kom inn af varamannabekknum á 70. mínútu leiksins en Wolfsburg er nú tveimur stigum á eftir Bayern fyrir lokaumferðina. Bayern á titilinn í raun vísan því liðið á heimaleik eftir gegn botnliði Turbine Potsdam í lokaumferðinni.

Wolfsburg leikur heima gegn Freiburg í síðustu umferðinni en liðið á einnig eftir að mæta Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þann 3. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×