Lífið

Varð vitni að verstu mar­tröð lýsandans á seinna undan­k­völdinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gísli Marteinn Baldursson lýsir Eurovision fyrir Íslendingum, eins og fyrri ár. Eurovísir hitti hann úti í Liverpool.
Gísli Marteinn Baldursson lýsir Eurovision fyrir Íslendingum, eins og fyrri ár. Eurovísir hitti hann úti í Liverpool. Vísir/Helena

Gísli Marteinn Baldursson íslenski lýsandi Eurovision er kominn í stellingar fyrir úrslitin sem fram fara í Liverpool í kvöld. Hann segist enn eiga eftir fáeina góða brandara í handraðanum fyrir kvöldið – og lýsir sannri martröð Eurovision-lýsandans sem kollegi hans hér úti í Liverpool lenti í á seinna undankvöldinu á fimmtudag.

Eins og alþjóð er væntanlega meðvituð um komst Ísland ekki áfram í úrslit Eurovision þrátt fyrir frábæra frammistöðu Diljár í fyrrakvöld. Og það verður víst að halda Eurovision þó að Ísland taki ekki þátt.

Eurovísir hitti Gísla Martein úti í Liverpool nú þegar aðalkvöldið nálgast óðfluga. Viðtalið við hann má finna í sjötta og síðasta þætti Eurovísis þetta árið hér fyrir neðan.

„Stutta svarið er bara að Evrópa var ekki alveg jafnhrifin af þessu og Ísland var og það getur alltaf gerst,“ segir Gísli Marteinn, inntur eftir því hvort hann hafi einhverjar skýringar á gengi Íslands í ár.

„Og núna bara dýrkuðum við Power og munum gera áfram um ókomna tíð. Og Evrópu fannst það örugglega fínt en ekki svo gott að þau vildu klappa það upp til að flytja í annað sinn. Og við eigum bara að taka því og ekkert vera fúl, hvorki út í okkur sjálf né Evrópu fyrir þetta.“

Óvæntir töfrar á fimmtudagskvöld

Hann kveðst hafa rætt niðurstöðuna við lýsendur annarra þjóða sem hann hittir reglulega á fundum í Eurovision-höllinni.

„Þau voru hissa að við skyldum ekki komast. En þau sögðu öll líka að það hefði verið bara í fyrrakvöld sem þau föttuðu hvað hún var góð. Þau höfðu ekki alveg kveikt á því þannig að það voru einhverjir töfrar í þessum performans hjá henni,“ segir Gísli Marteinn.

Það vakti talsverða athygli í útsendingunni heima á Íslandi á fyrra undankvöldinu þegar skyndilega heyrðist hátt í andardrætti Gísla Marteins undir króatíska framlaginu.

„Það var eins og ég væri annað hvort stórlega móðgaður eða mjög æstur yfir því að þeir færu á nærbuxurnar,“ segir Gísli Marteinn kíminn yfir atvikinu, sem á sér tæknilegar skýringar.

„En málið var að ég vissi ekkert að það væri kveikt á hljóðnemanum mínum og það var búið að vera mikið tæknivesen, allt kerfið í höllinni hrundi rétt fyrir útsendingu og RÚV var með einhverja varaleið.“

Matareitrun á versta mögulega tíma

Tæknin getur einmitt komið Eurovision-lýsanda í koll. En hver væri stærsta martröð lýsandans? Að segja eitthvað hræðilegt sem færi í loftið, segir Gísli Marteinn snöggur til svars. En hann nefnir líka annars konar martraðaraðstæður, sem kollegi hans hér í Liverpool þurfti að reyna á eigin skinni við lýsingu á seinni undankeppninni nú á fimmtudag.

„Einn af lýsendunum fékk matareitrun, það er líka vond martröð fyrir lýsanda. Hann þurfti að hlaupa á milli, lögin eru náttúrulega bara þrjár mínútur og við erum ekki með klósett fyrir okkur. Við erum bara á almenningsklósettunum niðri og við erum öll búin að taka tímann, maður er tvær mínútur og 45 sekúndur að hlaupa á klósettið og til baka. Þannig að það er líka svolítil martröð ef eitthvað sem þú hefur borðað yfir daginn fer illa í magann á þér. Þannig að þær eru margar martraðirnar í lífi lýsandans, sérstaklega þegar er komið fram á laugardag eftir langan tíma hérna og lítinn svefn.“

Eurovísir er þáttur um Eurovision - á Vísi! Við kryfjum keppnina, komandi og liðnar, og eltum okkar fólk út til Liverpool. Fyrri þætti má nálgast hér.


Tengdar fréttir

Svæsnasta kvöldið í Eurovision-vikunni hingað til?

Eurovision-goðsagnirnar Selma Björnsdóttir og Friðrik Ómar Hjörleifsson létu ekki sitt eftir liggja á Eurovision-vertíðinni sem nú stendur sem hæst í Liverpool. Í kringum þau hefur myndast stór og tryggur aðdáendahópur karlmanna sem þau hlakka til að hitta á hverju ári. Eurovísir fylgdi Selmu og Friðriki á æfingu í Euroclub, þar sem mesta og svæsnasta Eurovision-djammið fer fram.

Fengu drauminn loksins uppfylltan eftir þungbær svik í fyrra

Tveir vinir sem sviknir voru um miða á Eurovision í fyrra hafa nú fengið ósk sína uppfyllta, og rúmlega það. Þeir eru mættir til Liverpool með ósvikna miða á úrslitakvöldið á morgun og voru einnig viðstaddir undanúrslitakvöldið á þriðjudag. Viðtal við félagana má horfa á neðar í fréttinni.

Bjóst við því að komast áfram

„Þetta eru náttúrulega vonbrigði. Ég bjóst við því að komast áfram en þetta gekk ógeðslega vel og ég er bara mjög góð,“ segir Diljá Pétursdóttir, fulltrúi Íslands í Eurovision, innt eftir viðbrögðum við niðurstöðu kvöldsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×