Handbolti

Elín Klara(ði) meistarana með frammistöðu upp á tíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir fagnar sigurmarki sínu gegn Fram.
Elín Klara Þorkelsdóttir fagnar sigurmarki sínu gegn Fram. vísir/hulda margrét

Elín Klara Þorkelsdóttir var hetja Hauka þegar þeir slógu Íslandsmeistara Fram úr leik í sex liða úrslitum Olís-deildar kvenna í handbolta.

Haukar komu mörgum á óvart með því að vinna fyrsta leikinn gegn Fram á heimavelli meistaranna, 20-26. Haukar voru svo með frumkvæðið lengst af í öðrum leiknum á Ásvöllum í gær. Og þegar fimm mínútur voru eftir leiddu Hafnfirðingar með fjórum mörkum, 27-23. Frammarar unnu hins vegar síðustu fimm mínúturnar, 5-1, og tryggðu sér framlengingu. Perla Ruth Albertsdóttir jafnaði í 28-28 úr vítakasti þegar leiktíminn var runninn út.

Þar voru taugarnar þandar og liðin gerðu fjölmörg mistök. Perla Ruth jafnaði fyrir Fram, 30-30, þegar mínúta var eftir og allt var á suðupunkti á Ásvöllum.

Elín Klara tekur lokaskot leiksins.vísir/hulda margrét

Haukar fengu lokasóknina og þegar þrjár sekúndur voru eftir fékk Elín Klara boltann vinstra megin fyrir utan og lét vaða. Boltinn söng í netinu og Haukar fögnuðu sigri, 31-30, og sæti í undanúrslitum Olís-deildarinnar.

Klippa: Sigurmark Elínar Klöru gegn Fram

Þetta var ellefta mark Elínar Klöru í leiknum. Það var langt því frá það eina sem hún gerði í leiknum. Elín Klara gaf nefnilega sex stoðsendingar, fimm vítasendingar, fiskaði tvö víti, stal boltanum einu sinni, tók tvö fráköst og stöðvaði leikmenn Fram þrettán sinnum í vörninni.

Fyrir þessa frábæru frammistöðu fékk hún tíu í einkunn hjá HB Statz. Tíu í sóknareinkunn, varnareinkunn og heildareinkunn.

Elín Klara var engu síðri í fyrri leiknum gegn Fram þar sem hún skoraði tólf mörk úr þrettán mörkum. Hún skoraði því samtals 23 mörk í leikjunum tveimur gegn Íslandsmeisturunum og þurfti til þess aðeins 28 skot.

Haukar mæta ÍBV í undanúrslitum Olís-deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×