Handbolti

Sigurgeir nýr þjálfari Stjörnunnar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sigurgeir Jónsson (t.h.) er nýr þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í handbolta.
Sigurgeir Jónsson (t.h.) er nýr þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í handbolta. Stjarnan

Sigurgeir Jónsson er nýr þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í handbolta. Hann hefur störf í sumar og tekur við af Hrannari Guðmundssyni sem er á útleið.

Tilkynnt var í síðustu viku að Hrannar myndi ekki halda áfram sem þjálfari liðsins en liðinu gekk vel undir hans stjórn í vetur. Það lenti í þriðja sæti deildarinnar með 31 stig, fimm stigum frá deildarmeisturum ÍBV.

Fram undan eru leikir gegn KA/Þór í umspili um sæti í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Fyrsti leikurinn er næstkomandi mánudag í Garðabænum.

Sigurgeir mun taka við af Hrannari að úrslitakeppninni lokinni en hann hefur verið hluti af teymi meistaraflokks kvenna í vetur ásamt því að þjálfa elstu yngri flokka kvenna hjá félaginu. Hann hefur sinnt þeim flokkum hjá Stjörnunni síðustu fimm ár.

Hann tekur nú skrefið upp í að vera aðalþjálfari kvennaliðsins.

„Ég er spenntur fyrir þessu verkefni sem ég er að taka að mér. Einhverjar breytingar verða á leikmannahópnum en til staðar er góður grunnur, blanda af reyndari leikmönnum og ungum efnilegum stelpum sem eru að koma upp úr yngri flokka starfinu. Stjarnan er stórveldi í íslenskum kvennahandbolta og stefnan að byggja upp gott lið til frambúðar. En fyrst er auðvitað að klára yfirstandandi tímabil af fullum krafti,“ er haft eftir Sigurgeiri í fréttatilkynningu Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×