Sport

Maho­mes valinn sá mikil­vægasti með miklum yfir­burðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Mahomes átti frábært tímabil með Kansas City Chiefs og það getur orðið enn betra á sunnudagskvöldið.
Patrick Mahomes átti frábært tímabil með Kansas City Chiefs og það getur orðið enn betra á sunnudagskvöldið. AP/Charlie Riedel

Patrick Mahomes var í gær útnefndur mikilvægasti leikmaður NFL-deildarinnar á þessu tímabili en framundan er stórleikur hjá honum á sunnudagskvöldið þegar hann spilar með liði sínu Kansas City Chiefs í sjálfum Super Bowl.

Þetta er í annað skiptið á ferlinum sem Mahomes er valinn bestur en hann hafði mikla yfirburði í kosningunni. Hann er aðeins á sínu sjötta tímabili í NFL-deildinni.

Mahomes fékk 48 af 50 atkvæðum í fyrsta sætið en þeir sem kjósa eru bandarískir fjölmiðlamenn sem fjalla um NFL-deildina í fullu starfi.

Mahomes fékk því alls 490 stig en næstur á eftir hinum var Jalen Hurts hjá Philadelphia Eagles með 193 stig. Hurts mætir einmitt Mahomes í Super Bowl leiknum um helgina.

Leikstjórnendur voru í fjórum efstu sætunum því Josh Allen hjá Buffalo Bills varð þriðji og Joe Burrow hjá Cincinnati Bengals endaði í fjórða sætinu.

Mahomes er aðeins tíundi leikmaðurinn í sögunni sem nær að vinna þessi virtu verðlaun tvisvar. Hann átti flesta sendingajarda í deildinni á tímabilinu (5.250) sem og flestar sendingar fyrir snertimörkum (41).

Það voru líka veitt önnur verðlaun. New York Jets mennirnir Sauce Gardner (vörn) og Garrett Wilson (sókn) voru valdir nýliðar ársins.

Justin Jefferson, útherji Minnesota Vikings, var kosinn besti sóknarmaðurinn og Nick Bosa hjá San Francisco 49ers þótti besti varnarmaður deildarinnar.

Geno Smith, leikstjórnandi hjá Seattle Seahawks, átti endurkomu ársins og Brian Daboll hjá New York Giants var valinn þjálfari ársins.

Super Bowl fer fram á sunnudagskvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 23.30. Upphitun hefst klukkan 22.00.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×