Innlent

Arna fer fram á að rann­sókn á hendur sér verði felld niður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Arna er fyrir miðju á myndinni, við hlið Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja.
Arna er fyrir miðju á myndinni, við hlið Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Vísir/Vilhelm

Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja, hefur farið þess á leit við dómstóla að rannsókn héraðssaksóknara á hendur henni verði úrskurðuð ólögmæt og felld niður.

Frá þessu greinir Morgunblaðið en í umfjöllun blaðsins segir að Arna hafi haft réttarstöðu sakbornings í þrjú ár vegna rannsóknar á meintum brotum Samherja í Namibíu en hún hafi ekkert heyrt frá héraðssaksóknara í sautján mánuði.

Að sögn Halldórs Brynjars Halldórssonar, lögmanns Örnu, var þess óskað síðasta vor að réttarstöðu Örnu yrði breytt, þar sem ekkert benti til þess að hún hefði gerst sek um saknæma háttsemi.

„Við ítrekuðum kröfuna í tvígang en þegar alltaf var svarað á sama veg, án þess að nein efnisleg afstaða væri tekin, sáum við ekki aðra færa leið en láta á þetta reyna fyrir dómstólum,“ segir Halldór í samtali við Morgunblaðið.

Í greinargerð sem hefur verið lögð fyrir dómstóla segir einnig að Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, sé vanhæfur til að annast rannsóknina sökum þess að hann sé bróðir Inga Freys Vilhjálmssonar, blaðamanns á Stundinni.

Er Finnur sagður hafa byggt á gögnum og fréttaskrifum frá bróður sínum.

Halldór segir það ekki hafa legið fyrir fyrr en nýlega að Finnur hefði yfirumsjón með rannsókninni.

„Þegar við gerðum okkur grein fyrir því að Finnur Þór færi þannig með stjórn rannsóknar, sem bróðir hans Ingi Freyr hefði tekið þátt í að vinna upp í hendurnar á honum, var ákveðið að tilefni væri orðið til þess að leita aðkomu dómstóla.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×