Enski boltinn

Martínez sagði Ten Hag að kaupa sig til að losna við Arsenal

Valur Páll Eiríksson skrifar
Martínez vildi frekar fara til United en Arsenal.
Martínez vildi frekar fara til United en Arsenal. Ash Donelon/Manchester United via Getty Images

Nýkrýndi heimsmeistarinn Lisandro Martínez var með tilboð frá Arsenal á borðinu síðasta sumar en vildi frekar endurnýja kynnin við Erik ten Hag, stjóra Manchester United.

Martínez var varnarmaður Ajax í Hollandi frá 2019 þar til í sumar og lék þar undir stjórn Erik ten Hag, sem tók við Manchester United í sumar.

Ten Hag greinir frá því í viðtali við hollenska fjölmiðla að Martínez hafi verið ákveðinn í að yfirgefa Ajax en Arsenal, topplið ensku úrvalsdeildarinnar, lagði mikla áherslu á að semja við kappann. Hann vildi frekar leika fyrir ten Hag í Manchester.

„Ef við hefðum ekki tekið hann hefði hann farið til Arsenal. Hann var í forgangi þar. Licha (Lisandro Martínez) hringdi í mig á einum tímapunkti: „Þjálfari, ég er að fara frá Ajax hvort sem er, en ef þú vilt mig fer ég til Manchester United“,“ segir ten Hag.

„Þá hugsaði ég að ég gæti ekki skotið mig í fótinn. Hann hefði aldrei verið áfram í Amsterdam, það var ljóst. Við slógum til og gengum frá samningum,“ segir hann enn fremur.

Manchester United snýr aftur úr HM-pásu í kvöld þegar liðið mætir Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley í enska deildabikarnum.

Liðið situr í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 26 stig, þremur frá Meistaradeildarsæti. Nottingham Forest er næsti andstæðingur liðsins í deildinni, þann 27. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×