Sport

Stal boltanum af Tom Brady og fékk hann svo til að árita boltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Brady átti mjög erfiðan dag í Kaliforníu í gær þegar Tampa Bay liðið fékk stóran skell.
Tom Brady átti mjög erfiðan dag í Kaliforníu í gær þegar Tampa Bay liðið fékk stóran skell. AP/Jed Jacobsohn

Tom Brady og félagar í Tampa Bay Buccaneers fengu slæma útreið á móti sjóðheitu liði San Francisco 49ers í NFL-deildinni í gær.

49ers liðið vann leikinn 35-7 eftir að hafa komist í 35-0. Þetta var sjötti sigur San Francisco liðsins í röð og flestir þeirra hafa verið mjög sannfærandi.

Tom Brady hefur sjaldan fengið skell sem þennan en hann kastaði boltanum meðal annars tvisvar frá sér í þessum leik.

Brady er eins og flestir vita, einn allra besti ef ekki besti leikmaðurinn í sögu NFL deildarinnar. Hann er búinn að vinna fleiri titla en allir aðrir og er enn að spila þótt að hann sé orðinn 45 ára gamall.

Dre Greenlaw er 25 ára varnarmaður San Francisco 49ers og á sínu fjórða ári í deildinni. Hann var nýbúinn að halda upp á þriggja ára afmælið sitt þegar Brady kom inn í NFL-deildina.

Greenlaw komst inn í eina sendinguna frá Brady í leiknum og eftir leikinn fór hann til Brady og fékk hann til að árita þennan sama bolta.

Greenlaw var spurður út í þetta af blaðamönnum eftir leikinn.

„Hann er góður gæi að geta átritað boltann eftir að haga kastað boltanum ítrekað frá sér. Það er stórt,“ sagði Dre Greenlaw.

„Ég ber mikla virðingu fyrir honum. Hann er sá besti. Hann er geitin. Ég er mjög þakklátur fyrir þetta,“ sagði Greenlaw.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×