Skoðun

Grettistak

Ármann Jakobsson skrifar

Öld fílaminnisins er á enda runnin en upp risin öld hinna aðgengilegu gagnagrunna. Aldrei hefur verið léttara að skrifa góða íslensku með aðstoð netsins en þó virðist margir sem vinna við tungumálið stundum í vandræðum með það og þá skellur stundum á hvass bylur gagnrýnisradda, eins og t.d. þegar einn fjölmiðillinn dró orðið „grettistak“ úr pússi sínum og notaði ranglega.

Slík mistök gætu við fyrstu sýn virst vera þekkingarleysi en líklega er nær að kenna þau við leti. Fæstir kunna stafsetningu eða beygingarmyndir svo vel að þeir þurfi aldrei að fletta neinu upp. Það hefur hins vegar aldrei verið léttara en núna að vinna bug á gleymskunni.

Stofnun Árna Magnússonar rekur gagnagrunninn Málið (malid.is) sem er í raun safn gagnagrunna – og raunar mætti kalla þann góða vef sannkallað grettistak sem nú er búið að hefja á loft. Þar má finna Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Íslenska stafsetningarorðabók, Íslenskt orðanet, Ritmálssafn Orðabókar Háskólans, Orðabók Blöndals og Íslenska orðsifjabók og fjölmörg fleiri orðasöfn. Óhætt er að mæla með þeim öllum því að engin ein bók geymir allt sem fólk sem tjáir sig á opinberum vettvangi þarf að kunna. Saman eru þær hins vegar býsna öflugt verkfæri allra skrifandi manna.

Ef við höldum okkur við orðið grettistak má í Ritmálssafni finna 25 dæmi um orðið frá 17. öld til nútímans sem öll veita hugmynd um hvernig það er notað. En einnig má á Málinu finna skilgreiningu orðsins í Íslenskri nútímamálsorðabók og þegar farið er í Íslenskt orðanet má finna 64 orð sem tengjast því. Líka má finna grein í Málfarsbankanum um orðið sem kemur að gagni þegar ákveða skal hvort það eigi við í fyrirsögn fréttar.

En auðvitað þarf enginn að halda sig við fróðleik frá Árnastofnun. Á tímaritavef Landsbókasafns er líka hægt að slá inn orðið „grettistak“ og verða margs vísari og auðvitað gerir leitarvélin í vafranum einnig sitt gagn. Það er svo víða hægt að finna fróðleik um þetta orð og fleiri að það er nánast óleyfileg andleg leti að skoða ekki málið (eða malid.is). Það verður alltaf svolítið tímafrekt að vanda sig en hefur þó aldrei verið léttara en nú.

Höfundur er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda og formaður Íslenskrar málnefndar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×