Erlent

Fetterman lagði Oz

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
CNN og Fox eru meðal þeirra miðla sem hafa lýst Fetterman sigurvegara í Pennsylvaníu.
CNN og Fox eru meðal þeirra miðla sem hafa lýst Fetterman sigurvegara í Pennsylvaníu. AP/The Philadelphia Inquirer/Tom Gralish

CNN, Fox News og fleiri miðlar hafa lýst John Fetterman sigurvegara í öldungadeildarþingkosningunum í Pennsylvaníu, þar sem mótframbjóðandi hans var sjónvarpslæknirinn Dr. Mehmet Oz.

Úrslit eru enn óljós í sjö af þeim ríkjum þar sem kosið var til öldungadeildarinnar í þingkosningunum sem fóru fram í Bandaríkjunum í gær. Kosið var um öll sæti fulltrúadeildar þingsins og 35 af 100 sætum í öldungadeildinni. Þá var einnig kosið um ríkisstjóra og dómara.

Nokkuð bar til tíðinda í nótt en enn sem komið er hefur árangur Demókrata, sem áttu undir högg að sækja, komið nokkuð á óvart. Eygja þeir raunhæfan möguleika á því að halda meirihluta sínum í öldungadeildinni, á meðan Repúblikanar þykja líklegri til að ná fulltrúadeildinni á sitt vald.

Demókratar hafa bætt við sig einu sæti í öldungadeildinni þegar úrslit eru óráðin um sjö sæti og hafa tryggt sér 47 sæti gegn 46 sætum Repúblikana. Í fulltrúadeildinni, þar sem sætin eru 435, hafa Repúblikanar tryggt sér 192 sæti gegn 167 sætum Demókrata.

Repúblikaninn Ron DeSantis var endurkjörinn ríkisstjóri Flórída en hann er sagður íhuga forsetaframboð árið 2024 og virðist eini maðurinn sem á raunverulegan möguleika á því að sigra Donald Trump, ef síðarnefndi stendur við stórkarlalegar yfirlýsingar og býður sig fram á ný.

Þá urðu nokkur söguleg úrslit í nótt, þar sem Maura Healey, sem vann sigur í Massachusetts, verður fyrsti lesbíski ríkisstjórinn í sögu Bandaríkjanna. Sarah Huckabee Sanders, einn margra fjölmiðlafulltrúa Trumps í Hvíta húsinu, verður fyrsta konan til að sitja í embætti ríkisstjóra Arkansas og þá verður Demókratinn Wes Moore fyrsti svarti maðurinn til að verða ríkisstjóri Maryland.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×