Fótbolti

Erfitt hjá Aroni Elís

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aron Elís átti enga draumainnkomu er lið hans tapaði niður forystu.
Aron Elís átti enga draumainnkomu er lið hans tapaði niður forystu. Getty/Lars Ronbog

Aron Elís Þrándarson og félagar hans í OB þurftu að horfa á eftir tveimur stigum er liðið missti niður 2-0 forystu gegn Randers í 2. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag.

Aron Elís byrjaði á varamannabekk OB sem heimsótti Randers. Bashkim Kadrii kom OB þar yfir eftir hálftímaleik áður en Charly Nouck Horneman tvöfaldaði forskotið rétt fyrir hálfleik.

Staðan var enn 2-0 þegar Aron Elís kom inn af bekknum á 70. mínútu en aðeins sjö mínútum síðar var hún orðin 2-2 eftir tvö mörk Randers á 75. og 77. mínútu. Engin draumainnkoma hjá Aroni Elís, sem þurfti ásamt liðsfélögum sínum, að horfa á eftir tveimur stigum.

OB er með eitt stig eftir tvo leiki í deildinni en Randers tvö.

Mikael Anderson spilaði þá fyrstu 70 mínútur leiksins á miðjunni hjá AGF sem vann 3-1 heimasigur á Viborg og er þar með komið með sín fyrstu stig í deildinni. Sigurd Haugen, Mads Emil Madsen og Patrick Mortensen skoruðu mörk AGF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×