Fótbolti

Stórsigur hjá Alfons og félögum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alfons spilaði að venju allan leikinn hjá Bodö/Glimt.
Alfons spilaði að venju allan leikinn hjá Bodö/Glimt. Giuseppe Maffia/NurPhoto via Getty Images

Alfons Sampsted spilaði að venju allan leikinn í hægri bakvarðarstöðu Bodö/Glimt er liðið rúllaði yfir Jerv í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Bodö er ríkjandi meistari í Noregi en liðið hefur lent í vandræðum í ár. Það hefur þó verið að rétta úr kútnum undanfarnar vikur og hafði unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum fyrir leik dagsins gegn liðið Jerv sem sat í fallsæti.

Búist var fastlega við sigri heimamanna í Bodö og þeir ollu stuðningsmönnum sínum ekki vonbrigðum. Nígeríumaðurinn Victor Boniface kom liðinu yfir eftir tæplega stundarfjórðungsleik og þá þýddu þrjú mörk á sex mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks að staðan var 4-0 fyrir Bodö í hléi. Amahl Pellegrino skoraði tvö markanna og fyrirliðinn Ulrik Saltnes eitt.

Pellegrino fullkomnaði þrennu sína strax í byrjun síðari hálfleiks til að koma Bodö í 5-0. Mörkin urðu ekki fleiri og komst Bodö/Glimt með sigrinum í 3. sæti með 28 stig, upp fyrir Viking frá Stafangri á markatölu. Liðið er fimm stigum á eftir toppliðum Molde og Lilleström sem eru bæði með 33 stig eftir 15 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×