Tónlist

„Fallegt og unglegt viðhorf til ástarinnar og mistakanna sem maður getur gert þegar maður er skotinn“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Una Schram var að gefa út Mess Mixtape. 
Una Schram var að gefa út Mess Mixtape.  Berglaug

Tónlistarkonan Una Schram sendi frá sér smáskífuna Mess mixtape fyrr í dag og er hún unnin í samtarfi við pródúserinn Young Nazareth og listræna stjórnandan Júlíu Grönvald. Blaðamaður tók púlsinn á Unu.

„Öll lögin á plötunni eru skrifuð fyrir að minnsta kosti tveimur árum síðan og sum eru ennþá eldri,“ segir Una og bætir við að hún hafi verið á báðum áttum með sum lögin.

„Flestir tónlistarmenn kannast örugglega við það að komast yfir tónlistina sína, að hætta að tengja við sköpunina sína af því hún hefur elst og þú hefur elst og finnur ekki lengur fyrir tilfinningunum sem að innblésu sköpunarverkið þitt. Þú hugsar ekki lengur eins og þú ert jafnvel búinn að þróa öðruvísi áherslur í tónlistargerðinni þinni og svona. 

Ég er búin að finna svolítið fyrir þessu í gegnum þetta ferli og var á báðum áttum á tímabili að gefa plötuna út, en ég lærði einhvern veginn að elska lögin á þessari plötu á annan hátt en ég gerði þegar ég skrifaði þau. 

Mér finnst þau vera fallegur tákngervingur sakleysis, og sýna fram á fallegt unglegt viðhorf til ástarinnar og mistakanna sem maður getur gert þegar maður er skotinn. Ég var náttúrulega yngri þegar ég byrja að skrifa þessa texta og maður þroskast eitthvað svo hratt á þessum árum milli 18 og 25 ára.“

Una byrjaði að skrifa textana 18 ára.Berglaug

Einlæg en stælar inn á milli

„Platan er í heild sinni mjög einlæg þó það séu auðvitað stælar þarna inni á milli, og hún er skemmtileg. Ég held að það sem ég þurfti svolítið að læra er að þó svo að ég sé komin yfir eitthvað tímabil í lífi mínu, þá þýðir það ekki að listin sem ég skapaði á því tímabili geti ekki snert við öðru fólki sem er kannski að ganga í gegnum eitthvað sambærilegt. Og ég held að fólki muni finnast lögin skemmtileg, vera eitthvað til þess að tengja við og njóta,“ segir Una.

Alltaf að skipta um skoðun

„Fólk er mikið búið að spyrja mig af hverju ég kalla þetta mixtape, er þetta ekki bara plata? Ég hef alltaf litið á það sem kallast debut album eða fyrsta platan sem stóran áfanga í lífi tónlistarmanns sem er að vinna sig upp.“

Hún segir þann tíma ekki enn kominn hjá sér.

„Mig langaði að geyma það verkefni, að gefa út mína fyrstu almennilegu plötu þar til ég fyrst og fremst hef aflað mér meiri þekkingar á tónlist almennt og er kannski aðeins ákveðnari í því hvaða átt mig langar að fara sem tónlistarkona. Maður er náttúrulega alltaf að skipta um skoðun á því samt held ég bara út ævina, á einhvern hátt.“

Una Schram og listræni stjórnandinn Júlía Grönvaldt vinna mikið saman.Berglaug

Viðeigandi titill

Una segir aðdraganda útgáfunnar á þessu tiltekna verkefni vera mjög einstakan og út um allt. Því hafi það passað svo sérstaklega að þetta væri mixtape og að það héti mess.

„Titil-lagið á tape-inu er eitt af allfyrstu lögunum sem við Arnar Ingi (YoungNazareth) unnum saman, svo mér finnst það líka passandi.

Það var oft svolítið messy að vinna þetta. 

Ég flutti til og frá Íslandi þrisvar sinnum á meðan við Arnar vorum að taka upp þessa plötu, skiptum oft um stúdíó, Arnar flutti inn í nýtt stúdíó að lokum og við fórum síðan fram og til baka með allskonar pælingar um lög og hljóð o.s.frv. Svo var ég að klára háskólann úti í London á sama tíma, svo þetta eru búin að vera einstaklega áhugaverð þrjú ár og ég held að það heyrist á mixtape-inu,“ segir Una að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×