Handbolti

Hægt að styðja strákana okkar á stórmót í fyrsta sinn í þrjú ár

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið fékk góðan stuðning í Búdapest þar sem liðið endaði í 6. sæti á EM.
Íslenska landsliðið fékk góðan stuðning í Búdapest þar sem liðið endaði í 6. sæti á EM. Getty/Sanjin Strukic

Íslenskir aðdáendur karlalandsliðsins í handbolta fá afar langþráð tækifæri í apríl til að berja strákana okkar augum þegar þeir mæta Austurríki í leik upp á líf og dauða, eða réttara sagt sæti á HM í janúar.

Miðasala á leikinn hefst klukkan 12 á tix.is en um er að ræða fyrsta karlalandsleik í handbolta í þrjú ár þar sem áhorfendur eru leyfðir.

Síðast lék Ísland fyrir framan áhorfendur á heimavelli gegn Tyrklandi 16. júní 2019, í undankeppni EM. Síðan þá hefur kórónuveirufaraldurinn valdið vandræðum.

Hætt var við umspilsleiki vegna síðasta heimsmeistaramóts, sem fara áttu fram árið 2020, vegna faraldursins og fór Ísland þá sjálfkrafa beint á HM í Egyptalandi án þess að spila heimaleik.

Í undankeppni síðasta Evrópumóts lék Ísland svo þrjá heimaleiki, gegn Litáen, Portúgal og Ísrael, og voru áhorfendur bannaðir á öllum leikjunum vegna faraldursins.

Íslenska liðið hefur komið saman til æfinga hér á landi í landsliðsgluggum en ekki spilað vináttulandsleiki hér á landi síðan gegn Barein um jólin í lok árs 2018.

Ísland og Austurríki spila tvo leiki í umspilinu um sæti á HM. Fyrri leikur liðanna verður spilaður í Bregenz í Austurríki miðvikudaginn 13. apríl, klukkan 16 að íslenskum tíma. Heimaleikur Íslands verður á Ásvöllum laugardaginn 16. apríl, einnig klukkan 16.

HM á næsta ári fer fram í Póllandi og Svíþjóð dagana 11.-29. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×