Handbolti

Aron unnið stóran titil þrettán tímabil í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson fagnar með íslenska landsliðinu á síðasta Evrópumóti.
Aron Pálmarsson fagnar með íslenska landsliðinu á síðasta Evrópumóti. Getty/Kolektiff Images

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson er mikill sigurvegari í handboltanum og Aron bætti við enn einum titlinum um helgina. Þeir stóru eru nú orðnir þrjátíu í atvinnumennskunni.

Aron og félagar í Aalborg Håndbold urðu danskir bikarmeistarar í gærkvöldi eftir 30-27 sigur á GOG í úrslitaleiknum. Aron var markahæstur í sínu liðið með sjö mörk og fór mikinn á lokakafla leiksins.

Þetta er fyrsta tímabil Arons í Álaborg en hann heldur áfram uppteknum hætti að raða inn titlunum með félögum sínum. Hann gerði það með Kiel í Þýskalandi, með Veszprém í Ungverjalandi og með Barcelona á Spáni.

Þetta er nefnilega þrettánda tímabilið í röð þar sem Aron vinnur að minnsta kosti einn stóran titil og oftast hafa þeir verið fleiri en einn. Þetta er um leið þrettánda tímabil Arons í atvinnumennsku og síðasta titlalausa tímabilið hans var veturinn 2008-09 með liði FH.

Aron hefur nú unnið þrjátíu stóra titla á ferlinum þar af hefur hann ellefu sinnum orðið landsmeistari, fjórum sinnum deildarbikarmeistari, þrisvar sinnum unnið Meistaradeildina og tvisvar sinnum unnið heimsmeistarakeppni félagsliða.

Þetta var síðan tímamóta bikarmeistaratitill eða sá tíundi í röðinni. Hann vann þýska bikarinn þrisvar með Kiel og hefur nú orðið bikarmeistari á síðustu sjö tímabilum, tvisvar í Ungverjalandi, fjórum sinnum á Spáni og nú í fyrsta sinn í Danmörku.

Þetta var aðeins annar bikarmeistaratitil Álaborgarliðsins í sögunni en hinn vannst árið 2018.

  • Landsmeistara- og bikarmeistaratitlar Arons Pálmarsson á þrettán tímabilum í röð:
  • 2009-10 með Kiel: Meistari
  • 2010-12 með Kiel: Bikarmeistari
  • 2011-12 með Kiel: Meistari og bikarmeistari
  • 2012-13 með Kiel: Meistari og bikarmeistari
  • 2013-14 með Kiel: Meistari
  • 2014-15 með Kiel: Meistari
  • 2015-16 með Veszprém: Meistari og bikarmeistari
  • 2016-17 með Veszprém: Meistari og bikarmeistari
  • 2017-18 með Barcelona: Meistari og bikarmeistari
  • 2018-19 með Barcelona: Meistari og bikarmeistari
  • 2019-20 með Barcelona: Meistari og bikarmeistari
  • 2020-21 með Barcelona: Meistari og bikarmeistari
  • 2021-22 með Aalborg Håndbold: Bikarmeistari



Fleiri fréttir

Sjá meira


×