Sport

Björgvin Karl bestur í Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson átti mjög góða helgi í átta manna úrslitum heimsleikanna í CrossFit.
Björgvin Karl Guðmundsson átti mjög góða helgi í átta manna úrslitum heimsleikanna í CrossFit. Instagram/@bk_gudmundsson

Björgvin Karl Guðmundsson og Sara Sigmundsdóttir sýndu styrk sinn þegar undankeppni heimsleikanna hélt áfram um helgina.

Átta manna úrslit undankeppni heimsleikanna í CrossFit eru nú að baki og íslenska íþróttafólkið lét miklu meira að sér kveða heldur en í The Open á dögunum þar sem enginn var meðal efstu manna eða kvenna.

Í þessarri öðrum hluta undankeppninnar kepptist CrossFit fólk heimsins að tryggja sér sæti í undanúrslitunum þar sem sæti á heimsleikanna verða í boði í sumar. Það var því mikið undir í keppni helgarinnar.

Björgvin Karl Guðmundsson náði bestum árangri allra, ekki bara af þeim íslensku, heldur varð hann efstur í Evrópuhlutanum. Björgvin Karl sýndi þar og sannaði einu sinni enn hversu stöðugur og öflugur hann er.

Björgvin Karl gerði betur en Willy Georges frá Frakklandi og Lazar Dukic frá Serbíu sem komu næstir. Haraldur Holgeirsson náði síðan 22. sætinu sem var glæsilegt hjá honum en þeir voru einu íslensku karlarnir á topp fimmtíu.

Sara Sigmundsdóttir gerði betur og betur með hverri vikunni af The Open og hún hélt áfram að hækka sig í átta manna úrslitunum. Sara var um tíma í efsta sætinu, datt niður í sjötta sætið eftir dag tvö en hækkaði sig aftur á lokadeginum.

Sara náði að lokum fjórða besta árangrinum í Evrópu og endaði ofar en allar íslensku stelpurnar. Það voru bara Gabriela Migala frá Pólland, Emma McQuaid frá Írlandi og Jacqueline Dahlström frá Noregi sem náðu betri árangri en Sara.

Sólveig Sigurðardóttir sprakk út á síðasta tímabili og núna náði hún áttunda besta árangrinum í Evrópu í átta manna úrslitum sem er frábær árangur.

Þuríður Erla Helgadóttir varð fjórtánda og Katrín Tanja Davíðsdóttir í 22. sætinu en Ísland átti þar með fjórar konur á listanum yfir þær fimmtíu bestu í Evrópu. Oddrún Eik Gylfadóttir endaði í 51. sætinu og var því ótrúlega nálægt því að vera í þeim hópi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×