Fótbolti

Draumur óléttrar Dagnýjar rættist

Sindri Sverrisson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir og Brynjar Atli sonur hennar voru eitt sólskinsbros þegar þau fengu óvænt að hittast fyrir leik í gær að frumkvæði forráðamanna West Ham.
Dagný Brynjarsdóttir og Brynjar Atli sonur hennar voru eitt sólskinsbros þegar þau fengu óvænt að hittast fyrir leik í gær að frumkvæði forráðamanna West Ham. @westhamwomen/Getty

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins West Ham komu íslensku landsliðskonunni Dagnýju Brynjarsdóttur afar skemmtilega á óvart fyrir leikinn við Brighton í Lundúnum í gær.

Áður en að leikmenn gengu inn á völlinn í gær kom óvæntur gestur að hitta Dagnýju og liðsfélaga hennar. Það var hinn þriggja ára gamli Brynjar Atli, sonur Dagnýjar, sem í tilefni af mæðradeginum í Bretlandi fékk að leiða mömmu sína inn á völlinn.

Af myndum að dæma kom uppátæki West Ham-manna Dagnýju mjög skemmtilega á óvart og þrátt fyrir að vera vissulega svekkt eftir 2-0 tap í leiknum þakkaði hún félaginu fyrir ógleymanlega stund.

„Miður mín yfir því að við skyldum ekki fá neitt út úr leiknum í dag. Þetta hefði verið fullkomið með sigri. Í dag fékk ég að ganga inn á völlinn, haldandi í hönd sonar míns í fyrsta sinn frá því að hann fæddist. Þetta var mjög sérstök stund fyrir mig, fyrir okkur bæði,“ skrifaði Dagný á Instagram eftir leik.

„Þetta er eitthvað sem mig hefur dreymt um frá því að ég var ólétt. Þetta var draumur sem rættist. Takk fyrir þessa óvæntu stund West Ham Women. Ég hlakkaði svo mikið til að taka í fyrsta sinn mynd af mér með syni mínum eftir leik. Þakklát fyrir þetta ótrúlega félag, starfsfólkið og liðsfélagana,“ skrifaði Dagný og óskaði öllum „mögnuðu mömmunum þarna úti“ til hamingju með daginn.

Dagný er að vanda í íslenska landsliðshópnum sem kemur saman í byrjun næsta mánaðar vegna leikjanna mikilvægu við Hvíta-Rússland og Tékkland í undankeppni HM. 

Fyrst á hún þó fyrir höndum leik með West Ham gegn Manchester City næsta laugardag. West Ham er í 7. sæti af tólf liðum ensku úrvalsdeildarinnar, nú stigi á eftir Brighton, en City er í 4. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×