Fótbolti

Patrik Sigurður og Samúel Kári í undanúrslit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Patrik Sigurður hélt hreinu.
Patrik Sigurður hélt hreinu. Vikingfotball.no

Íslendinglið Viking í Noregi komst í dag í undanúrslit norsku bikarkeppninnar með 5-0 útisigri á KFUM Oslo. Markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson og miðjumaðurinn Samúel Kári Friðjónsson leika með Viking.

Patrik Sigurður stóð vaktina í marki Viking og hafði það frekar náðugt miðað við leik í 8-liða úrslitum. Sigur Viking var einkar sannfærandi eins og lokatölurnar gefa til kynna. Samúel Kári kom inn af bekknum á 72. mínútu leiksins.

Veton Berisha skoraði tvívegis í liði Viking, sömu sögu er að segja af varamanninum Niklas Sandberg og þá skoraði Kevin Kabran eitt mark.

Í ítölsku úrvalsdeildinni lék Guðný Árnadóttir allan leikinn er AC Milan gerði 1-1 jafntefli í Rómarborg. Guðný nældi sér í gult spjald snemma leiks. Eftir jafntefli dagsins er AC Milan í 4. sæti deildarinnar með 34 stig, tíu stigum minna en topplið Juventus.

Þá var Jón Daði Böðvarsson í byrjunarliði Bolton Wanderers sem vann dramatískan 1-0 sigur á Crewe Alexandra í ensku C-deildinni. Amadou Bakayoko kom inn á fyrir Jón Daða um miðbik síðari hálfleiks og hann skoraði sigurmark leiksins. 

Bolton situr nú í 11. sæti með 58 stig, níu stigum minna en Sunderland sem er í síðasta umspilssætinu þegar sjö umferðir eru eftir af deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×