Körfubolti

Sektaður um þrjár milljónir fyrir að segja aðdáanda að þegja

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kevin Durant þarf að opna veskið eftir að hafa sagt aðdáanda að þegja.
Kevin Durant þarf að opna veskið eftir að hafa sagt aðdáanda að þegja. AP Photo/Seth Wenig

Körfuboltamaðurinn Kevin Durant hefur verið sektaður um 25 þúsund dollara fyrir að segja aðdáanda að þegja í tveggja stiga tapi Brooklyn Nets gegn Dallas Mavericks síðastliðinn miðvikudag. Það samsvarar rúmlega þremur milljónum íslenskra króna.

Sektina fær Durant fyrir „ruddalegt orðalag í garð aðdáanda“ eins og það er orðað, en leikmaðurinn skipaði manninum að þegja og setjast niður.

Aðdáandinn kallaði inn á völlinn og sagði Durant að hann þyrfti að taka yfir leikinn. Durant brást hinn versti við og skipaði manninum að grjóthalda kjafti og setjast niður svo farið sé fínt í hlutina.

Eins og áður segir tapaði Brooklyn-liðið leiknum naumlega, en Spencer Dinwiddie setti niður flautukörfu til að tryggja Dallas sigurinn, 113-111. Kevin Durant var stigahæstur í liði Brooklyn með 23 stig, ásamt því að taka sex fráköst og gefa tíu stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×