Enski boltinn

Umbinn hans Salahs grenjar úr hlátri yfir ummælum Klopps

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Framtíð Mohameds Salah hjá Liverpool er í óvissu.
Framtíð Mohameds Salah hjá Liverpool er í óvissu. getty/Stephanie Meek

Umboðsmanni Mohameds Salah fannst ekki mikið til ummæla Jürgens Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, um samningsstöðu Egyptans koma, allavega ef marka má færslu hans á Twitter.

Á blaðamannafundi í dag sagði Klopp að Liverpool hafi gert það sem félagið gat til að halda Salah. Samningur hans við Liverpool rennur út eftir næsta tímabil.

„Mo býst við því að félagið sýni metnað. Við höfum gert það og gerum það. Við getum ekki gert mikið meira. Þetta er ákvörðun Mos. Félagið gerði það sem það gat gert. Þetta er allt í góðu að mínu mati. Það hefur ekkert frekar gerst, engin undirskrift eða höfnun. Við verðum bara að bíða. Það liggur ekkert á,“ sagði Klopp.

Umboðsmaður Salahs heitir Ramy Abass Issa. Hann tjáði sig um ummæli Klopps á Twitter, eða gaf allavega í skyn hvað honum fyndist um þau. Issa birti sjö tjákn af körlum að grenja úr hlátri. Hann virðist því ekki vera sammála Klopp að Liverpool geti ekki gert meira til að halda Salah.

Salah hefur alls skorað 27 mörk fyrir Liverpool á þessu tímabili. Liðið er búið að vinna deildabikarinn og á enn möguleika á að vinna ensku úrvalsdeildina, bikarkeppnina og Meistaradeild Evrópu.

Liverpool sækir Brighton heim í hádeginu á morgun. Með sigri minnkar liðið forskot Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar niður í þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×