Íslenski boltinn

Hilmar varð fyrir áfalli í Boganum

Sindri Sverrisson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson hefur verið lykilmaður í liði Stjörnunnar um árabil en verður ekki með í Bestu deildinni í sumar.
Hilmar Árni Halldórsson hefur verið lykilmaður í liði Stjörnunnar um árabil en verður ekki með í Bestu deildinni í sumar. vísir/Elín

Hilmar Árni Halldórsson, lykilmaður í knattspyrnuliði Stjörnunnar, mun ekki spila meira með liðinu á þessu ári.

Eins og óttast var er nú endanlega ljóst að Hilmar Árni sleit krossband í hné þegar hann meiddist í leik gegn Þór í Boganum á Akureyri. Ágúst Gylfason þjálfari Stjörnunnar staðfesti þetta við 433.is.

Stjörnumenn voru afar ósáttir eftir leikinn í Boganum og kölluðu knatthúsið slysagildru. Helgi Hrannar Jónsson, formaður meistaraflokks Stjörnunnar, gagnrýndi Akureyrarbæ og KSÍ harðlega fyrir aðgerða- og skeytingarleysi gagnvart Boganum og sagði alla leikmenn Stjörnunnar hafa fundið fyrir eymslum eftir leikinn í Lengjubikarnum 19. febrúar.

Hilmar Árni, sem er þrítugur, hefur verið sannkallaður lykilmaður í liði Stjörnunnar frá því að hann kom í Garðabæinn frá Leikni fyrir tímabilið 2016.

Hann skoraði sex mörk í Pepsi Max-deildinni í fyrra en hefur átt þrjár leiktíðir þar sem hann hefur skorað 10 mörk eða fleiri og alls hefur hann skorað 63 mörk í 147 leikjum í efstu deild, sem miðjumaður. Stjarnan þarf núna að spjara sig án Hilmars og hans marka:

„Þetta er gríðarlegt áfall. Verst fyrir Hilmar sjálfan auðvitað, hann var búinn að vera á eldi með okkur í vetur. Við reynum að fá hann inn í teymið á einhvern hátt,“ sagði Ágúst við 433.is en hann tók við þjálfun Stjörnunnar í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×