Handbolti

Seinni bylgjan: Besti leikmaður Vals svona „diet“-útgáfa af Ómari Inga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Snær Óskarsson var frábær í sigri Vals á móit Fram og kemur sterkur inn eftir EM-fríið í Olís deildinni.
Arnór Snær Óskarsson var frábær í sigri Vals á móit Fram og kemur sterkur inn eftir EM-fríið í Olís deildinni. Vísir/Hulda Margrét

Arnór Snær Óskarsson átti mjög góðan leik þegar Valsmenn sóttu tvö stig í Safarmýrina eftir sigur á nágrönnum sínum í Fram í Olís deild karla í vikunni. Arnór var tekinn fyrir í Seinni bylgjunni.

„Óskar Bjarni á alltaf einhvern strák í Valsliðinu sem spilar vel og þessu sinni var það Arnór Snær Óskarsson. Hann var gjörsamlega frábær. Níu mörk og úr ellefu skotum og sjö sköpuð færi. Það er rosalega gaman að horfa á hann á vellinum Jói,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar.

„Hann var frábær og er búinn að vera frábær. Mér finnst hann vera svona diet-útgáfa af Ómari Inga ef ég má segja það,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar.

Hann er á auðvitað að vísa til Ómars Inga Magnússonar, Íþróttamanns ársins 2021, markakóngs þýsku deildarinnar 2021 og markakóng síðasta Evrópumóts.

Klippa: Seinni bylgjan: Arnór Snær er svona diet -útgáfa af Ómari Inga

„Ómar Ingi er búinn að brjóta niður alla staðla um hvernig skyttur eiga að vera, stórir eða eitthvað. Nú skiptir það engu máli. Mitt kalda mat í þessu er að mér finnst hann eiginlega vera orðinn besti leikmaður Vals,“ sagði Jóhann Gunnar um Arnór Snæ.

„Hvernig hann er búinn að vera að spila. Það fer allt í gegnum hann og hann býr bæði til sjálfur því hann er hraður með geggjaðar fintur, hann er með geggjuð skot og hann er byrjaður að senda ruglsendingar niður í hornin eins og maður sér hjá Ómari Inga,“ sagði Jóhann.

„Maður var svona þrisvar í leiknum: Vá þetta var mjög góð sending,“ sagði Jóhann.

Það má finna alla umfjöllunina um Arnór Snæ Óskarsson hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×