Fótbolti

Arfleiddi félagið sitt óvænt að öllum milljónunum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karlbergs Bollklubb minntist Lennart Alm á miðlum sínum.
Karlbergs Bollklubb minntist Lennart Alm á miðlum sínum. Instagram/@karlbergs_bollklubb

Svíinn Lennart Alm kom félagi sínu mikið á óvart eftir að hann kvaddi þessa jörð.

Alm átti enga að. Engin börn, enga fjölskyldu og enga ættingja. Hann elskaði hins vegar félagið sitt Karlbergs BK.

Lennart Alm hafði keppt fyrir Karlbergs BK á sínum yngri árum og stutt það allar götur síðan. Liðið er lítið félag í Stokkhólmi en er orðið meira en hundrað ára gamalt. Fótboltaliðið er í fjórðu deildinni og hefur lengst spilað í neðstu deildunum.

Það kom hins vegar ekki í ljós fyrr eftir hans dauðdaga hversu miklu máli félagið skipti hann Lennart Alm.

Lennart lést á sjúkrahúsi eftir veikindi en þegar menn sáu erfðaskrána kom sannleikurinn í ljós.

„Allt fer til Karlbergs BK,“ skrifaði hann utan á bréfið með erfðaskránni og þar var hann einnig búinn að ganga frá öllu. Aftonbladet segir frá.

Í búðinni hans mátti einnig finna alls konar hluti sem minnti á félagið. Verðlaun frá hans ferli, úrklippur og margskonar hlutir merktir Karlbergs BK.

Þeir sem þekktu til þessa gamla manns gátu nú ekki búist við því að hann ætti mikil til að gefa. Margir hlutanna hans eiga vissulega heima á safni félagsins en þegar betur var að gáð þá hafði hann heilmikið að gefa.

Lennart Alm hafði náð að safna að sér átta milljónum sænskra króna sem gera meira en 106 milljónir íslenskra króna.

Forráðamenn Karlbergs BK trúðu varla sínum eigin augum þegar þeir komust að hinu sanna en eftir mjög erfiða tíma í tengslum við kórónuveirufaraldurinn þá er ljóst að þessar milljónir munu eiga mikinn þátt í að halda rekstri félagsins gangandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×