Íslenski boltinn

Valur fær varnarmann sem lék með danska landsliðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Jesper Juelsgaard rauðklæddur í leik með AGF þar sem hann hefur spilað síðustu fimm ár.
Jesper Juelsgaard rauðklæddur í leik með AGF þar sem hann hefur spilað síðustu fimm ár. Getty/Cathrin Mueller

Valsmenn halda áfram að styrkja leikmannahóp sinn fyrir komandi knattspyrnusumar og er danski varnarmaðurinn Jesper Juelsgård næstur inn um dyrnar á Hlíðarenda.

Juelsgård er 33 ára, reynslumikill varnarmaður sem leikið hefur með AGF frá árinu 2016, alls 133 leiki. Hann hefur þó aðeins spilað 66 mínútur í dönsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og sóttist því eftir því að komast á nýjar slóðir.

Þess má geta að Juelsgård hefur leikið tvo leiki fyrir danska A-landsliðið sem og fleiri leiki fyrir yngri landslið Íslands.

AGF greindi frá því í dag að samkomulag hefði náðst um að Juelsgård færi strax frá félaginu en samningur hans átti að renna út í sumar. Danskir fjölmiðlar segja ljóst að Valur sé næsti áfangastaður hans en Valur á þó eftir að staðfesta félagaskiptin.

Valsmenn hafa farið mikinn á félagaskiptamarkaðnum í vetur eftir vonbrigði síðasta tímabils, þegar liðið endaði í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar, tapaði gegn 1. deildarliði í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar og missti af sæti í Evrópukeppni. 

Félagið hefur meðal annars fengið miðvörðinn Hólmar Örn Eyjólfsson, miðjumanninn Ágúst Eðvald Hlynsson og sóknarmanninn Aron Jóhannsson, sem og markvörðinn Guy Smit, bakvörðinn Heiðar Ægisson úr Stjörnunni og miðjumanninn Orra Hrafn Kjartansson frá Fylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×