Körfubolti

Áfall fyrir topplið NBA: Chris Paul frá í sex til átta vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Paul á ferðinni með boltann í leik með Phoenix Suns liðinu í vetur.
Chris Paul á ferðinni með boltann í leik með Phoenix Suns liðinu í vetur. AP/John Bazemore

Chris Paul tók pínulítinn þátt í Stjörnuleik NBA deildarinnar í nótt en eftir hann bárust nánari fréttir af meiðslum kappans.

Paul er brotinn á hægri þumalputta og má ekki spila næstu sex til átta vikurnar. Hann var með í Stjörnuleiknum en kom bara inn í tvær mínútur og menn tóku eftir umbúðum á hægri þumli hans.

Paul hefur verið frábær í vetur og hefur stýrt Phoenix Suns til langbesta árangursins í NBA-deildinni. Hann mun missa af stærstu hluta þess sem er eftir af deildarkeppninni. Deildarkeppnin endar 10. apríl eða eftir tæpar átta vikur. Úrslitakeppnin hefst síðan 16. apríl.

Paul er með 14,9 stig og 10,7 stoðsendingar að meðaltali í leik en enginn leikmaður í deildinni hefur gefið fleiri stoðsendingar í leik í vetur.

Hann meiddist á þumalputtanum í þriðja leikhlutanum í sigri á Houston Rockets á miðvikudeginum í síðustu viku. Hann var reyndar rekinn út úr húsi eftir að hafa fengið tvær tæknivillur strax eftir atvikið þar sem hann meiddi sig.

Suns liðið hefur unnið 48 leiki og aðeins tapað tíu leikjum. Liðið er með 6,5 sigurleikja forskot á næsta lið sem er Golden State Warriors.

Flestir voru búnir að gefa sér að Suns myndi enda með besta árangurinn í deildinni en þessi meiðsli leikstjórnandans og hins mikla leiðtoga liðsins gæti boðið upp á erfiðan lokakafla hjá Phoenix liðinu.

Chris Paul var heiðraður fyrir leikinn í gær þegar hann fékk fyrstur allra Kobe og Gigi Bryant verðlaunin sem WNBA deildin gefur leikmanni í NBA fyrir frábært framlag sitt til að efla stelpu- og kvennakörfu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×