Handbolti

Úrslit dagsins í þýska handboltanum

Atli Arason skrifar
Arnór Þór í landsliðstreyjunni
Arnór Þór í landsliðstreyjunni vísir/getty

Öllum fjórum leikjum dagsins í þýska handboltanum er nú lokið eftir að viðureign Lemgo og Stuttgart var frestað.

Fyrsti leikur dagsins var einvígi HSV Hamburg og Füchse Berlin sem gestirnir úr Berlin unnu með þremur mörkum, 27-30. Hinn danski Hans Lindberg í liði Füchse Berlin var markahæsti leikmaður vallarins með níu mörk.

Hornamaðurinn Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk í tveggja marka tapi Bergischer gegn Kiel, 24-26. Niclas Ekberg skoraði flest mörk í leiknum fyrir Kiel, alls sjö mörk.

Í Göppingen tóku heimamenn á móti HSG Wetzlar í leik sem Göppingen sigraði frekar þægilega, 33-26. Marcel Schiller og Jon Andersen, leikmenn Göppingen, voru saman markahæstu leikmenn vallarins með átta mörk hvor.

Fjórða og síðasta viðureign dagsins var leikur Minden og Leipzig sem var æsispennandi og jafn frá upphafi til enda. Gestirnir frá Leipzig voru þrem mörkum yfir þegar fimm mínútur voru eftir, 19-22, en öflugur lokakafli hjá Minden tryggði þeim 23-23 jafntefli. Markhæstur í þessum leik var Króatinn Šime Ivić með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×