Sport

Vann ÓL-gull og fagnaði með að kyssa þjálfarann og hrauna yfir sambandið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arianna Fontana kyssir hér þjálfara sinn sem er líka eiginmaður hennar.
Arianna Fontana kyssir hér þjálfara sinn sem er líka eiginmaður hennar. AP/David J. Phillip

Ítalska skautakonan Arianna Fontana vann Ólympíugull í skautaati í vikunni og fagnaði því á frekar sérstakan hátt.

Eftir að gullið var í höfn þá kyssti hún þjálfara sinn og hraunaði síðan fyrir Skautasamband Ítala í viðtölum við blaðamenn.

Fontana fagnaði sigrinum með því að öskra og steyta hnefanum upp í loftið en það var öllum ljóst að þetta skipti hana gríðarlegu máli.

„Ég er ekki vön því að öskra en þetta var leið fyrir mig að ná öllu út því ég þurfti að losa mig við reiðina,“ sagði Arianna Fontana.

Hún skautaði síðan beint til þjálfara síns, Anthony Lobello Jr., og smellti á hann kossi eins og sjá má á myndinni að ofan.

Hin 31 árs gamla skautakona heldur því fram að enginn hjá Skautasambandi Ítala hafi viljað sjá hana á þessum leikum.

Hún hefur staðið í deilum við ítalska sambandið síðan á Ólympíuleikunum fyrir fjórum árum. Deilan á rætur sínar að rekja til þess að hún ákvað að eiginmaðurinn yrði þjálfari hennar. Í framhaldi af þeirri ákvöðrun lækkaði ítalska sambandið stuðningsgreiðslur sínar.

„Við vorum að glíma við fólk sem vildi ekki sjá mig hér. Sambandið hefur ekki stutt vel við bakið á mér af því að maðurinn minn þjálfar mig,“ sagði Arianna Fontana.

„Við sýndum öllum að hann er frábær þjálfari. Það var best fyrir mig að hafa hann mér við hlið,“ sagði Arianna.

Þau eyddu þremur árum í Ungverjalandi en komu til baka til Ítalíu á síðasta ári til að æfa með ítalska landsliðinu.

„Ég hitti stjórnarmenn á ganginum og þeir óskuðu mér ekki til hamingju. Það er reyndar betra að þeir haldi sig bara fjarri,“ sagði Arianna og hún er óviss með framhaldið.

„Ef hlutirnir breytast ekki þá ætla ég ekki að ganga aftur í gegnum þetta,“ sagði Arianna.

Hún er mjög sigursæl en þetta voru hennar tíundu verðlaun á Ólympíuleikun. Arianna vann einnig gull í 500 metra skautaati í Pyeongchang 2018 og fékk silfur í greininni í Sochi 2014. Hún hefur unnið tvö gull, þrjú silfur og fimm brons á Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×